Keldan, upplýsingavefur fyrir fjármálamarkaðinn, hagnaðist um 37 milljónir árið 2020, rétt eins og árið 2019. Tekjurnar jukust um eina milljón á milli ára og námu 75,5 milljónum króna árið 2020.

Arðsemi eiginfjár var 37 prósent en félagið var ekki með vaxtaberandi skuldir. Eiginfjárhlutfallið var 96 prósent við árslok.

Á síðasta ári greiddi félagið 60 milljónir króna í arð til hluthafa. Árið áður greiddi Keldan ekki arð.

Keldan er í eigu Kóða sem er tíu ára gamalt fjártæknifyrirtæki með 20 starfsmenn.

Fram kom í janúar í Markaðnum að Keldan hafi komið á fót gjaldeyrismarkaði þar sem kaupendur og seljendur séu leiddir saman. „Við erum að vinna að því að auka gagnsæi og sýnileika á gjaldeyrismarkaði. Fram að þessu hefur skort yfirsýn yfir kaup- og sölutilboð enda hafa viðskiptin einkum farið fram í símtölum við gjaldeyrismiðlara,“ sagði Einar Oddsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Kóða og Keldunni, við það tilefni.