Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, afhenti Önnu Björk Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra þjónustu og rekstrar hjá Isavia starfsleyfi flugumferðarþjónustu með formlegum hætti á dögunum.
Það var afhent að undangengnu samþykktarferli og með breyttu fyrirkomulagi tekur Isavia við bæði daglegum rekstri og faglegri umsjón flugumferðarþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli. Áfram verður náið samstarf við Isavia ANS, dótturfélag Isavia, um rekstur starfseminnar og samlegðaráhrif í rekstri beggja fyrirtækja nýtt líkt og kostur er í gegnum þjónustusamning.
Skömmu eftir skipulagsbreytingar Isavia árið 2019, þar sem meðal annars var stofnað sérstakt félag utan um rekstur flugleiðsögu hjá dótturfélaginu Isavia ANS, var ákveðið að flugumferðarþjónusta á Keflavíkurflugvelli yrði að fullu hluti af daglegum rekstri Isavia.
Með því móti eru allir helstu þjónustuþættir sem snúa að rekstri Keflavíkurflugvallar á sömu hendi. Rekstur daglegrar starfsemi flugturnsins í Keflavík hefur til þessa verið að stórum hluta á forræði Þjónustu og rekstrarsviðs á meðan fagleg yfirsjón hefur verið á hendi Isavia ANS.
Þjónustu og rekstrarsvið mun í framhaldi breytingarinnar hafa með höndum stjórnun á flugumferð á Keflavíkurflugvelli og loftrýminu þar í kring, sem nær frá jörðu upp í 3000 fet.