Hagnaður fjárfestingafélagsins KEA, sem er samvinnufélag staðsett á Akureyri, nam 81 milljón króna árið 2019. Til samanburðar tapaði fjárfestingafélagið 128 milljónum króna árið áður. Hreinar fjárfestingatekjur jukust úr 73 milljónum króna í 280 milljónir króna á milli ára. Arðsemi eiginfjár var eitt prósent á árinu 2019.

Eignir KEA drógust saman um 178 milljónir króna á milli ára og námu 8,1 milljarði króna. Það á hluti í óskráðum fyrirtækjum sem metnir eru á 4,4 milljarða, skráð skuldabréf fyrir 1,6 milljarða króna og fasteignir fyrir um 1,1 milljarð króna.

Á meðal óskráðra eigna KEA má nefna 44 prósenta hlut í Jarðböðunum sem metinn er á tvo milljarða króna, 5,5 prósenta hlut í Samkaupum, metinn á 451 milljón króna, og 22 prósenta hlut í Norlandair metinn á 246 milljónir króna. Á meðal annarra fyrirtækja í eignasafninu má nefna Íslensk verðbréf og Slippinn Akureyri.

Í fyrra keypti KEA meðal annars 12,5 prósenta hlut í Sérleyfisbílum Ak-Norðurleið á 59 milljónir króna. Miðað við það er rútufyrirtækið metið á tæpar 500 milljónir króna.

Leiðrétting: Ranghermt var í frétt um uppgjörið sem birtist í vikublaðinu Markaðnum að KEA hefði keypt 17 prósenta hlut í fiskvinnslunni Marúlfi á Akureyri fyrir 54 milljónir króna. Hið rétta er að KEA hefur átt hlutinn í einhvern tíma. Árið 2018 var hluturinn metinn á 0 krónur í bókum KEA.