KEA hefur hætt við að byggja nýtt hótel við Hafnarstræti á Akureyri. Búið er að skila lóðinni til bæjaryfirvalda en greint er frá þessu á eyfirska fréttavefnum Vikudegi.

Félagið hafði áður frestað framkvæmdum vegna óvissu í ferðaþjónustu og fjármögnunarskilyrða á lánamarkaði, sem Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, sagði að hafi versnað í kjölfar falls WOW air í samtali við Fréttablaðið síðastliðinn maí.

Þá stóð til að reisa og leigja 150 herbergja hótel á svokallaðri Umferðarmiðstöðvarlóð við Hafnarstræti 80. Vikudagur ræddi við Halldór þar sem hann segir að bæjaryfirvöld á Akureyri hafi ekki viljað veita félaginu frekari frest til að bíða betri skilyrða til að hefja framkvæmdir. Því hafi ekki annað verið í stöðunni en að skila lóðinni.

„Við höfum fjárfest mikið í lóðinni og getum ekki beðið endalaust og vonast eftir því að skilyrðin batni,“ sagði Halldór í samtali við Fréttablaðið í maí 2019.