Icelandair Group og malasíska félagið Berjaya Land Berhad hafa náð samkomulagi um að lokagreiðsla vegna kaupa síðarnefnda félagsins á 75 prósenta hlut í Icelandair Hotels verði lækkuð í ljósi þeirrar efnahagsóvissu sem ríkir vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu.

Lokagreiðslan mun þannig nema 1,5 milljarði króna, um 10,3 milljónum dala, en samkvæmt fyrri tilkynningu Icelandair Group frá því í lok febrúarmánaðar var gert ráð fyrir að lokagreiðslan yrði 20,3 milljónir dala.

Heildarkaupverð eignarhlutarins er því um 6,5 milljarðar króna - 45,3 milljónir dala - miðað við núverandi gengi. Lækkar það því um tíu milljónir dala, sem jafngildir um 1,4 milljörðum króna, frá því sem áður hafði verið samið um.

Þá verður umrædd lokagreiðsla greidd í dag en ekki þann 31. maí eins og áður hafði verið tilkynnt um. Afhending á bréfum Icelandair Hotels fer fram í kjölfarið. Þá verður ný stjórn skipuð og þar tilnefnir Icelandair Group einn stjórnarmann og Berjaya tvo.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir ánægjulegt að ljúka sölu á Icelandair Hotels á þessum tímapunkti. Salan styðji við þá stefnu félagsins að leggja fyrst og fremst áherslu á kjarnastarfsemi Icelandair Group, flugrekstur, sem hafi aldrei verið mikilvægara en nú.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.
Fréttablaðið/Stefán

„Við erum stolt af því að hafa leitt uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu á undanförnum árum og þróun og vöxtur Icelandair Hotels var mikilvægur liður í því. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka starfsfólki Icelandair Hotels fyrir vel unnin störf við uppbyggingu gæðahótela sem bjóða framúrskarandi þjónustu og sanna íslenska upplifun. Þrátt fyrir þá óvissu sem nú ríkir í heiminum er ég sannfærður um að framtíðarhorfur íslenskrar ferðaþjónustu eru góðar.

Kaup Berjaya endurspegla þá sýn og staðfesta gæði og virði hótelfélagsins sem verður helsti styrkur þess þegar kemur að því að grípa þau tækifæri sem gefast þegar fer að rofa til á ný,“ segir Bogi Nils.

Berjaya Land Berhad er skráð félag í Malasíu og starfar meðal annars í hótelrekstri, smásölu og fasteignaþróun. Berjaya Land Berhad og tengd félög eru með um 4.700 starfsmenn og nema árlegar tekjur samstæðunnar 1,76 milljörðum dala. Stofnandi og stjórnarformaður Berjaya Group er Vincent Tan en hann er meðal annars eigandi breska knattspyrnufélagsins Cardiff City.