Hagnaður Lykils, sem varð hluti af samstæðu TM í síðasta mánuði, nam 344 milljónum króna á síðasta ári samkvæmt bráðabirgðauppgjöri eignaleigufélagsins. Samkvæmt því verður kaupverð TM á félaginu samanlagt um 9,6 milljarðar króna.

Þetta kom fram í máli Sigurðar Viðarssonar, forstjóra TM, á fundi með fjárfestum vegna uppgjörs tryggingafélagsins fyrir fjórða fjórðung síðasta árs síðdegis í gær.

Hann tók þó fram að um bráðabirgðauppgjör væri að ræða sem stjórn og endurskoðandi Lykils ættu eftir að staðfesta.

Sem kunnugt er nam kaupverð TM á öllu hlutafé í Lykli 9,25 milljörðum króna auk þess sem tryggingafélaginu ber að greiða seljanda, eignaumsýslufélaginu Klakka, hagnað Lykils á síðasta ári. Verður umrædd viðbótargreiðsla innt af hendi þegar endurskoðað uppgjör Lykils fyrir síðasta ár liggur fyrir.

Miðað við að endanlegt kaupverð sé um 9,6 milljarðar króna er verðið á genginu 0,81 af bókfærðu eigin fé Lykils en það var hátt í 11,9 milljarðar króna í lok síðasta árs.

Hagnaður Lykils dróst umtalsvert saman á síðasta ári, samkvæmt bráðabirgðauppgjörinu, en hann nam um 1.212 milljónum króna árið 2018. Skýrist munurinn aðallega af virðisbreytingum og bókfærðri tekjuskattsinneign sem kom til hækkunar á hagnaði ársins 2018.

Þá var arðsemi eigin fjár Lykils 2,8 prósent í fyrra, samkvæmt bráðabirgðauppgjörinu.

Starfsemi Lykils verður flutt í höfuðstöðvar TM í Síðumúla í þessum mánuði.
Fréttablaðið/Stefán

Sigurður nefndi enn fremur á fundinum að stjórnendur samstæðunnar hefðu þegar tekið ákvarðanir um kostnaðarhagræðingu vegna kaupanna sem næmi um 200 milljónum króna. Sem dæmi hefði verið ráðist í uppsagnir og þá stæði jafnframt til að flytja starfsfólk og alla starfsemi Lykils í höfuðstöðvar TM í Síðumúla í þessum mánuði. Auk þess hefði félagið hug á því að nýta styrk sinn sem stærri eining og bjóða út ýmsa verkþætti.

Ætlunin væri að ná hagræðingu upp á samanlagt 300 milljónir króna á næstu tveimur árum.

„Það eru mýmörg tækifæri sem við getum nýtt okkur sem stærri og sterkari aðili í kostnaðarhagræðingu,“ sagði Sigurður.