Kaupverðið á Borgun, sem var í meirihlutaeigu Íslandsbanka, var lækkað um átta milljónir evra, jafnvirði nærri 1.300 milljóna króna á núverandi gengi, vegna þeirra neikvæðu efnahagsáhrifa sem kórónaveirufaraldurinn hefur haft á rekstur félagsins. Rekstrartap Borgunar á fyrstu fimm mánuðum ársins nam 642 milljónum króna sem er töluvert meira tap en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Samkvæmt heimildum Markaðarins greiðir alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækið Salt Pay, sem gekk frá kaupum á tæplega 96 prósenta eignarhlut í Borgun í síðustu viku, samtals 27 milljónir evra, jafnvirði 4,3 milljarða króna, fyrir hlutafé íslenska félagsins. Við undirritun kaupsamnings 11. mars síðastliðinn átti kaupverðið hins vegar að nema 35 milljónum evra.

Auk Íslandsbanka, sem er í eigu ríkisins og átti um 63,5 prósenta hlut í Borgun, seldi Eignarhaldsfélagið Borgun, sem er meðal annars í eigu Stálskipa og Einars Sveinssonar fjárfestis, 32,4 prósenta hlut sinn í fyrirtækinu.

Eftir nokkurra ára aðdraganda hófst formlegt söluferli á Borgun í byrjun janúar 2019 og var það í umsjón svissneska ráðgjafarfyrirtækisins Corestar Partners og fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka. Samkvæmt heimildum Markaðarins nemur sölukostnaður seljenda, ráðgjafarkostnaður og árangurstengd þóknun, samtals yfir 20 prósentum af söluverðinu, eða nærri milljarði króna.

Auk Salt Pay sýndi meðal annars breski fjárfestingarsjóðurinn Financial Services Capital, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í evrópskum fjármálafyrirtækjum, áhuga á Borgun og setti fram skriflegt tilboð í félagið undir lok síðasta árs. Tilboðið var talsvert hærra en það sem Salt Pay greiðir nú fyrir Borgun, en viðræður við Financial Services í kjölfarið skiluðu engri niðurstöðu.

Ekki var samstaða um söluna til Salt Pay, sem er meðal annars í eigu Ali Mazanderani stjórnarmanns í Credit­info, í stjórn Borgunar. Sumir stjórnarmenn, samkvæmt heimildum Markaðarins, töluðu fyrir því að breyta starfsleyfi Borgunar úr því að vera lánafyrirtæki, sem felur í sér meiri íþyngjandi eiginfjárkröfur af hálfu Fjármálaeftirlitsins, yfir í greiðslustofnun, rétt eins og Valitor gerði í ársbyrjun 2020. Markmiðið væri að ráðast í kjölfarið í tilteknar aðgerðir sem miðuðu að því að minnka efnahagsreikning Borgunar og þannig skapa svigrúm fyrir verulegri arðgreiðslu til hluthafa Borgunar, mögulega upp á 4 til 6 milljarða, áður en farið yrði í sölu á félaginu. Þær hugmyndir náðu ekki fram að ganga.

Forgangshlutabréf í Visa Inc., sem Borgun eignaðist þegar fyrirtækið seldi hlut sinn í Visa Europe með um 6,2 milljarða hagnaði á árinu 2016, fylgdu ekki með í kaupum Salt Pay. Borgun óskaði þannig eftir því undir lok síðasta mánaðar, eins og sagt hefur verið frá í Markaðinum, að Fjármálaeftirlit Seðlabankans samþykkti beiðni Borgunar um að lækka hlutafé félagsins um 3,5 milljarða króna með greiðslu til fráfarandi hluthafa, sem felur í sér afhendingu allra eignarhluta í Visa Inc.

Samhliða þeirri hlutafjárhækkun samþykkti Salt Pay að koma inn með nýtt hlutafé að fjárhæð átta milljónir evra. Verða 5 milljónir evra greiddar samtímis framkvæmd hlutafjárlækkunarinnar og síðan 3 milljónir evra sem komi til greiðslu innan næstu tólf mánaða.

Fram kemur í skýrslu stjórnar Borgunar vegna tillögu um hlutafjárlækkunina, sem Markaðurinn hefur undir höndum, að stjórnin hafi brugðist við versnandi rekstraraðstæðum með því að minnka lánsáhættu og losa lausafé. Þá hafi félagið gert samning um lánalínu við viðskiptabanka sinn til þess að tryggja nægt aðgengi að lausafé. Eiginfjárhlutfall félagsins hefur lækkað talsvert frá árslokum – þá var það 20,5 prósent – og var 14,69 prósent í lok maí. Að meðtöldu sjálfsmati á eiginfjárþörf eru lágmarkskröfur um eiginfjárhlutfall Borgunar 15,3 prósent. Með því að lækka hlutafé með útgreiðslu eignarhluta í Visa Inc. og hækka hlutafé með inngreiðslu reiðufjár er hins vegar gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall hækki.