Kaupþing hefur lokið við sölu á öllum tuttugu prósenta eignarhlut sínum í Arion banka. Gengið í viðskiptunum, eins og upplýst var um í Markaðinum í síðustu viku, er 75,5 krónur á hlut og nemur kaupverðið á hlut eignarhaldsfélagsins í bankanum því samtals um 27,4 milljarðar króna.

Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital, sem fer núna með sextán prósenta hlut í Arion banka, kaupir tæplega helminginn af bréfum Kaupþings, eftir því sem Markaðurinn kemst næst. Eftir kaupin verður Taconic, sem á jafnframt um 48 prósenta hlut í Kaupþingi, stærsti eigandi Arion banka með í kringum fjórðungshlut.

Aðrir helstu kaupendur að hlut Kaupþings í Arion banka, samkvæmt heimildum Markaðarins, eru fjárfestingafélagið Stoðir, sem eiga fyrir tæplega fimm prósenta hlut, og Lífeyrissjóður verslunarmanna (LV) en sjóðurinn átti í árslok 2018 aðeins um 0,4 prósenta hlut í bankanum.

Fossar markaðir, ásamt Citigroup og Carnegie, voru söluráðgjafar Kaupþings í viðskiptunum.

Auk Taconic, Stoða og LV munu einnig aðrir lífeyrissjóðir ásamt innlendum sjóðastýringarfélögum, sem eru nú fyrir í hluthafahópi Arion, kaupa bréf Kaupþings.

Tæplega tíu milljarðar króna af söluandvirðinu fellur í skaut ríkissjóðs á grundvelli afkomuskiptasamnings sem var á meðal þeirra stöðugleikaskilyrða sem Kaupþing þurfti að undirgangast við samþykkt nauðasamninga í árslok 2015.

Gengið var frá bindandi samkomulagi við hóp fjárfesta um kaupinn þann 1. júlí síðastliðinn með þeim fyrirvara að ríkið myndi ekki að stíga inn í viðskiptin og nýta sér forkaupsrétt sinn. Sem kunnugt er hafa stjórnvöld forkaupsrétt á öllum hlutabréfum Kaupþings ef til stendur að selja þau á genginu 0,8 eða lægra miðað við eigið fé Arion banka. Salan á tuttugu prósenta hlut Kaupþings fer fram á gengi sem jafngildir 0,73 miðað við eigið fé bankans í lok fyrsta ársfjórðungs.

Fjármálaráðuneytið hefur því nú gefið staðfestingu á því að ríkið kaus ekki að nýta sér forkaupsrétt að bréfum Kaupþings.

Benedikt Gíslason, sem var áður stjórnarmaður í Arion banka, hóf störf sem nýr bankastjóri Arion í byrjun síðustu viku og þá var tilkynnt í gær um ráðningu Ásgeirs Helga Reykfjörðs Gylfasonar sem nýs aðstoðarbankastjóra Arion. Ásgeir, sem er lögfræðingur að mennt, var áður framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kviku banka.

Ekki markmiðið að vera stærsti bankinn

Í tölvupósti sem Benedikt sendi á starfsmenn Arion banka síðastliðinn fimmtudag kom fram að það sé ekki endilega markmiðið að vera stærsti bankinn en hins vegar skipti máli að hann sé „framsækinn“ og „skili hluthöfum okkar arði.“

Þar sagði Benedeikt að nýju fólki fylgi alltaf einhverjar áherslubreytingar. „Ég mun þó ekki ana að neinu heldur taka þann tíma sem þarf með stjórn og starfsfólki til að þróa og móta áherslu í stefnu og starfsemi bankans.

Við viljum almennt styrkja stöðu okkar. Við þurfum ekki endilega að vera stærsti bankinn,“ útskýrir Benedikt, „en við viljum hins vegar vera framsækin, skila hluthöfum okkar arði og veita viðskiptavinum frábæra fjármálaþjónustu. Í raun er meginverkefnið framundan að ákveða hvernig við náum þessum markmiðum sem best.“