Eignarhaldsfélagið Kaupþing, sem var um margra ára skeið stærsti hluthafi Arion banka, greiddi út samtals 469 milljónir punda, jafnvirði um 73 milljarða króna á þáverandi gengi, til kröfuhafa sinna í fyrra en félagið vinnur að því selja eignir svo hægt sé slíta starfsemi félagsins.

Þar munaði mestu um sölu Kaupskila, dótturfélags Kaupþings, á eftirstandandi þriðjungshlut félagsins í Arion banka á árinu fyrir samtals um 47 milljarða króna. Þá greiddi félagið samtals 16,2 milljarða króna til íslenska ríkisins í samræmi við afkomuskiptasamning í tengslum við sölu á hlut þess í bankanum, að því er fram kemur í skýrslu stjórnar Kaupþings í nýbirtum ársreikningi.

Þar segir að töluverður árangur hafi náðst við úrlausn málaferla og ágreiningskrafna, meðal annars innheimta á 113 milljóna punda viðbótargreiðslu frá Oscatello-strúktúrnum vegna samkomulags sem gert var við Robert Tchenguiz og Tchenguiz Discretionary Trust í október 2018. Þá fékkst 97,7 milljóna evra greiðslu úr gjaldþrotameðferð Chesterfield United í kjölfar beiðni Kaupþings til dómstóla á Bresku jómfrúaeyjum um að skiptastjórum félagsins yrði gert skylt að greiða fjármunina út. Kaupþing náði einnig samkomulagi við Goldman Sachs í tengslum við langvinn málaferli félaganna.

Samtals hefur Kaupþing greitt skuldabréfaeigendum félagsins 2.937 milljónir punda með reiðufé en það samsvarar tæplega 95 prósentum af nafnvirði breytanlegu skuldabréfanna sem voru gefin út í ársbyrjun 2016 þegar slitabú Kaupþings lauk nauðasamningum.

Stjórn félagsins segir að í ljósi þess framgangs sem náðst hafi við sölu eigna á síðasta ári hafi hún nú til skoðunar með hvaða hætti sé best að ljúka starfsemi Kaupþings þegar nokkur lykilatriði hafa verið leyst. Slíkt gæti falið í sér sölu allra eftirstandandi eigna og að félagið sé sett í slitameðferð á næstu 12 mánuðum. Bókfært virði eigna Kaupþings nam rúmlega 52 milljörðum í árslok 2019.

Launakostnaður félagsins – fjöldi starfsmanna var 13 í lok síðasta árs – dróst saman um nærri helming og var um 1.625 milljónir á árinu. Þá minnkaði rekstrarkostnaður, sem samanstendur einkum af aðkeyptri sérfræðiþjónustu, um meira en þrjá milljarða á milli ára og var rúmlega 1.360 milljónir í fyrra.

Sjóðir í stýringu bandaríska vogunarsjóðsins Taconic Capital, sem er stærsti hluthafi Arion banka með liðlega 23 prósenta hlut, er sem fyrr umsvifamesti kröfuhafi Kaupþings með um 48 prósenta hlut. Aðrir helstu kröfuhafar félagsins í árslok 2019 voru Deutsche Bank, Och-Ziff Capital, Attestor Capital, JP Morgan, Citadel Equity, Kaupthing Singer & Friedlander Limited og Goldman Sachs.