Kaupþing, stærsti hluthafi Arion banka með um þriðjungshlut, hefur ákveðið að selja um tíu prósenta hlut í bankanum. Miðað við núverandi hlutabréfaverð Arion banka er sá hlutur metinn á um 15 milljarða króna.

Söluferlið hófst í dag með svonefndu tilboðsfyrirkomulagi (e. accelerated bookbuild offering) þar sem hluturnir, samtals 200 milljónir að nafnverði, voru boðnir til sölu í gegnum fjárfestingabanka og verðbréfafyrirtækja til fjárfesta á verði sem er nálægt því sem bréfin eru að ganga kaupa kaupum og sölum á á markaði.

Markaðurinn greindi frá því um miðjan febrúar að Kaupþing væri að undirbúa sölu á að lágmarki tíu prósenta hlut í bankanum. Gert væri ráð fyrir að salan færi fram á næstu vikum.

Bandaríski fjárfestingabankinn Citi, sænska verðbréfafyrirtækið Carnegie og Fossar markaðir eru ráðgjafar Kaupþings við söluna.

Hlutabréfaverð Arion banka, sem var 76,7 krónur á hlut við lokun markaða í dag, hefur hækkað um tæplega níu prósent frá áramótum.

Kaupþing og vogunarsjóðurinn Attestor Capital, sem fer núna með 7,15 prósenta hlut í Arion banka, seldu sem kunnugt er samanlagt um 29 prósenta hlut í hlutafjár­útboði bankans í júní í fyrra. Við skráningu Arion banka í kjölfarið á hlutabréfamarkað í Svíþjóð og á Íslandi var Kaupþingi, ásamt Att­estor, Taconic Capital, Och-Ziff Capital og Goldman Sachs, óheimilt að eiga viðskipti með bréf sín í bankanum í sex mánuði. Þeim söluhömlum lauk 20. desember síðastliðinn.

Við sölu Kaupþings á tveggja prósenta hlut eða meira í Arion banka mun vogunarsjóðunum og Goldman Sachs bjóðast að koma inn í þau viðskipti og selja á sama gengi í hlutfalli við skráða eignarhluti þeirra í bankanum (pro rata). Það er á grundvelli samkomulags sem Kaupþing og aðrir stærstu hluthafar Arion banka gerðu með sér um skipulegt söluferli eftir að söluhömlum yrði aflétt, samkvæmt heimildum Markaðarins.