Í kjölfar kórónaveirufaraldursins hafa mörg fasteignafélög með langtímaútleigu sem kjarnastarfsemi lent í umtalsverðum áskorunum og fá þeirra verið í færi til að bæta við sig fjárfestingum. Þetta segir Jónas Þór Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Kaldalóns, aðspurður hvað átt hafi verið með því að stjórn félagsins telji að nú sé lag að nýta sér markaðsaðstæður til að kaupa tekjuberandi eignir.

Í gær var upplýst að Kaldalón hyggist auka vægi tekjuberandi eigna í starfsemi félagsins en viðhalda á sama tíma sterkum þróunararmi. Fram að því hafði félagið einvörðungu verið í fasteignaþróun.

Í takt við þá stefnu keypti félagið fasteignafélög fyrir 5,3 milljarða króna og yfirtók skuldir fyrir 3,3 milljarða. Kaldalón hefur samið við Arion banka um ráðgjöf í tengslum við frekari kaup félagsins á tekjuberandi fasteignum. Á sama tíma var upplýst um sölu á fasteignaverkefni í Vogabyggð fyrir 2.760 milljónir króna að frádregnum skuldum.

Af hverju viljið þið reka leigufélag samhliða en ekki einblína á byggingarframkvæmdir?

„Hugmyndin er að dreifa áhættu félagsins, nýta betur þróunarþekkingu félagsins og tækifæri sem kunna að vera til staðar bæði til sölu íbúðaverkefna og til kaupa á tekjuberandi fasteignum. Jafnframt þessu að styrkja fjármögnunarhæfi félagsins,“ segir Jónas Þór.

Hver er ókosturinn að sinna eingöngu fasteignaþróun?

„Óreglulegt fjárflæði, hlutfallslega mikil fjárbinding og takmörkuð áhættudreifing,“ segir Jónas Þór.

Kaldalón hefur samið við um Arion banka um að sölutryggja allt að fimm milljarða króna í nýju hlutafé í tengslum við fyrirhugaða skráningu félagsins á aðallista kauphallar sem fyrirhuguð er á árinu 2022. Nú er Kaldalón skráð á First North-hliðarmarkaðinn.

Á að nýta allt hlutaféð sem safnast í aðdraganda skráningar á Aðallista til kaupa á tekjuberandi fasteignum eða mun hluti renna í þróunarverkefni?

„Að mestu leyti er það hugsað til kaupa á tekjuberandi fasteignum en að hluta til gæti það farið til þróunarverkefna,“ segir Jónas Þór.

Hann segir að Kaldalón horfi til þess í sinni vegferð að geta orðið spennandi fjárfestingarkostur á Aðallista Kauphallarinnar þegar til skráningar kemur sem fjórða fasteignafélagið með blandaðri nálgun á fasteignageirann, með minni yfirbyggingu og meiri breidd í nálgun sinni gagnvart tækifærum á fasteignamarkaðinn en hin þrjú félögin sem fyrir séu.