Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila jókst um 2,6 prósent á milli ára á fyrsta ársfjórðungi 2021, samkvæmt áætlun Hagstofunnar.

Áætlað er að ráðstöfunartekjur á mann hafi numið tæplega 1,1 milljón króna á fyrsta ársfjórðungi og hafi aukist um sjö prósent frá sama ársfjórðungi í fyrra.

Áætlað er að launatekjur heimila hafi aukist um 4,3 prósent á fyrsta ársfjórðungi og skattar á laun hafi aukist um 4,5 prósent á sama tímabili. Skýrist aukning í launatekjum heimila einkum af kjarasamningsbundnum launahækkunum, segir í tilkynningu Hagstofu.

Tryggingagjöld atvinnurekenda og launafólks heimilisgeirans jukust um þrjú prósent á ársfjórðungnum borið saman við sama ársfjórðung síðasta árs.

Heildartekjur heimilanna jukust um átta prósent á fyrsta ársfjórðungi 2021, samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. Þeir liðir sem vega þyngst í aukningu ráðstöfunartekna heimilisgeirans eru lífeyristekjur og félagslegar tilfærslur sem samanlagt jukust um 23 prósent og námu 18 prósent af heildartekjum heimilanna á tímabilinu. Auknar lífeyristekjur heimila skýrast að hluta af tímabundinni heimild til úttektar séreignalífeyrissparnaðar en auknar félagslegar tilfærslur skýrast af auknu atvinnuleysi sem og öðrum úrræðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins.