Launavísitalan hækkaði um 4,9 prósent á milli áranna 2018 og 2019, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Hækkunin innan ársins 2019, það er á milli desembermánaða 2018 og 2019, nam 4,5 prósentum.

Þetta kemur fram í frétt á vef Samtaka atvinnulífsins en þar er auk þess rakið að lágmarkslaun, sem hækkuðu um 17 þúsund krónur á mánuði frá apríl í fyrra, hafi hækkað um 6,6 prósent á milli áranna 2018 og 2019 og um 5,7 prósent innan ársins 2019.

Kaupmáttur launa jókst því samkvæmt launavísitölunni um 1,8 prósent á milli áranna 2018 og 2019 og um 2,4 prósent innan árs. Aukning kaupmáttar lágmarkslauna var enn meiri eða 3,5 prósent á milli áranna 2018 og 2019 og um 3,6 prósent innan ársins 2019.

Vísitala kaupmáttar launa byggist á launavísitölu og vísitölu neysluverðs og eykst kaupmáttur launa þegar laun hækka umfram verðlag.

Tekið er fram í frétt samtakanna að sundurliðun launaþróunar á milli starfsmanna á almennum markaði annars vegar og opinberum markaði hins vegar á síðustu tveimur mánuðum ársins 2019 liggi ekki fyrir. Þó megi ætla að laun á almennum markaði hafi hækkað að meðaltali um rúmlega fimm prósent á árinu í heild. Af þeim sökum sé hægt að gera ráð fyrir að kaupmáttur launa á almennum markaði hafi hækkað um ríflega tvö prósent á milli ára og rúmlega þrjú prósent innan ársins.

„Íslenskt launafólk hefur notið fádæma velgengni, hvað kjör varðar, undanfarin fimm ár. Kaupmáttur launa jókst um 26 prósent frá árslokum 2014 til ársloka 2019 og kaupmáttur lágmarkslauna um 32 prósent á sama tímabili. Það samsvarar því að kaupmáttur launa almennt hafi vaxið að jafnaði um fimm prósent árlega og kaupmáttur lágmarkslauna um sex prósent að jafnaði árlega, “ segir í frétt Samtaka atvinnulífsins.