Framtakssjóðurinn Freyja, sem er í rekstri Kviku banka, hefur keypt 15,8 prósenta eignarhlut í Arctic Adventures af núverandi hluthöfum félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Í tilkynningu segir að stefna Freyju sé að styðja við vöxt Arctic Adventures en stefnt sé að skráningu félagsins í kauphöll innan tveggja ára. Freyja er átta milljarða króna framtakssjóður sem fjárfestir fyrst og fremst í óskráðum félögum. Sjóðurinn var settur á stofn um mitt ár 2018 með áskriftarloforðum tæplega tuttugu hluthafa, lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta.

Arctic Adventures er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins en félagið skipuleggur, selur og sér um framkvæmd ferða og afþreyingar um allt land, svo sem köfun, snjósleðaferðir, flúðasiglingar, hvalaskoðun, ferðir í ísgöng og hellaferðir. Velta fyrirtækisins er um sjö milljarðar.

Nýlega var tilkynnt um sameiningu félagsins við Into the Glacier auk þess sem Arctic Adventures keypti hlut í fjórum öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum í eigu Icelandic Tourism Fund, þar á meðal í Lava Tunnel sem býður upp á ferðir inn í Raufarhólshelli.

„Við erum gríðarlega ánægð með að koma inn í hluthafahóp Arctic Adventures á þessum tímapunkti og spennt fyrir að vinna með öðrum hluthöfum og öflugu starfsfólki að áframhaldandi vexti félagsins,“ segir Margit Robertet, framkvæmdastjóri Freyju, í tilkynningunni.

Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures, segir stjórnendur og hluthafa Arctic Adventures fagna mjög aðkomu Freyju að félaginu. „Í aðdraganda kaupanna fundum við að Freyja hefur trú á þeirri langtímavegferð sem félagið er á, með stefnu á áframhaldandi stækkun hérlendis sem og þau tækifæri sem við höfum komið auga á erlendis. Rekstur félagsins hefur gengið vel þrátt fyrir verri ytri aðstæður en sú rekstrarniðurstaða hefur náðst með öflugu starfsfólki og skýrri stefnu í sölu og markaðsmálum,“ segir hann.

Fyrirtækjaráðgjöf Kviku var ráðgjafi seljenda í viðskiptunum en Lex lögmannsstofa var lögfræðilegur ráðgjafi Freyju framtakssjóðs og Nordik lögfræðiþjónusta ráðgjafi félagsins.