Kauphöllin hafnaði beiðni Heimavalla um að taka hlutabréf leigufélagsins, sem er hið stærsta á landinu, úr viðskiptum á Aðalmarkaði.

Að mati Kauphallarinnar mun afskráning valda hluthöfum verulegu tjón og það geti dregið úr trúverðugleika markaðarins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Sérstaklega er litið til þess að hluthafar að baki 19 prósent atkvæða á aðalfundi Heimavalla greiddu atkvæði gegn tillögu um að afskrá leigufélagið. Kauphöllin telur að hlutfallið sé verulega hátt.

Kauphöllin telur enn fremur að seljanleiki bréfa Heimavalla hafi verið fullnægjandi og að félagið uppfylli skilyrði um fjölda hluthafa.

Félög sem eiga 19 prósenta hlut í Heimavöllum og eru á vegum hjónanna Finns Reyr Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur og viðskiptafélaga þeirra Tómasar Kristjánssonar lögðu til afskráninguna. Þegar beiðnin var lögð fram hafði gengi hlutabréfanna lækkað umtalsvert frá skráningu á hlutabréfamarkað í maí í fyrra.

Sigla, sem er í þeirra eigu, ásamt öðrum fjárfestum buðust til að kaupa allt að 27 prósenta hlut í Heimavöllum. Aðrir þátttakendur voru Alfa framtak, Varða Capital og Eignarhaldsfélagið VGJ.

Tilgangurinn með tilboðinu var að greiða fyrir afskráningu Heimavalla og veita þeim hluthöfum sem hugnist ekki afskráning þann kost að selja hlutabréf sín.