Nasdaq Iceland segir að það séu góðar fréttir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hyggist leggja fram frumvarp um innleiðingu skattaafsláttar vegna kaupa almennings á hlutabréfum.

„Við þurfum að efla skoðanaskipti á markaðnum. Þetta er eitt skref, síðan eru það erlendu fjárfestarnir. Það verður auðveldara fyrir þá að koma inn eftir sameiningu Nasdaq verðbréfamiðstöðvar við Nasdaq CSD í Evrópu í maí,“ skrifar Nasdaq Iceland á Twitter.

Í umfjöllun Markaðarins í gær lýstu stórir einkafjárfestar og forstöðumenn hjá hlutabréfasjóðum áhyggjum yfir því að virkum þátttakendum á hlutabréfamarkaðinum hefði fækkað. Bent var á að lífeyrissjóðir hefðu dregið úr eign sinni í hlutabréfasjóðum og að hluthöfum í skráðum félögum færi fækkandi.

Skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa var lagður til í Hvítbókinni um fjármálakerfið sem leið til þess að efla virkni hlutabréfamarkaðarins. Þar var bent á að þegar hlutabréfamarkaðurinn var byggður upp á tíunda áratug tuttugustu aldar hefði almenningur verið hvattur til hlutabréfakaupa með skattahvötum. Afslátturinn var síðan lækkaður í skrefum og afnuminn upp úr aldamótum.