Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur eignast M-veitingar ehf., en síðarnefnda félagið annast rekstur Metro-hamborgarastaðanna. Samkeppniseftirlitið (SKE) birti í gær ákvörðun um samruna KS og M-veitinga, en eftirlitið úrskurðaði að ekkert yrði aðhafst frekar vegna samruna félaganna.

Tveir staðir eru reknir undir merkjum Metro, einn við Suðurlandsbraut 26 og annar við Smáratorg í Kópavogi. KS og hluthafar M-veitinga undirrituðu kaupsamning þann 31. október síðastliðinn.

Kaupin koma til vegna skuldauppgjörs systurfélags M-veitinga við Kaupfélagið.

Velta M-veitinga á árinu 2019 var um 400 milljónir króna, en SKE kemst að þeirri niðurstöðu að markaðshlutdeild fyrirtækisins sé óveruleg á alla mælikvarða, enda sé heildarvelta á veitinga- og skyndibitamarkaði á bilinu 80 til 90 milljarðar.

„Samrunaaðilar hafa auk þess upplýst að samrunanum sé ekki ætlað að styrkja samkeppnisstöðu samrunaaðila sérstaklega, heldur sé honum aðallega ætlað að leysa eigendur M-veitinga undan skuldum við KS,“ segir í ákvörðun SKE.