Rekstrarhagnaður samstæðu Kaupfélags Skagfirðinga fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta jókst um 1,8 milljarða króna á síðasta ári og hljóðaði upp á 6,8 milljarða króna, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins. Velta ársins 2019 var um 9,2 prósentum hærri en árið áður, eða um 39,7 milljarðar króna.

Hagnaður eftir afskriftir, fjármagnsliði og skatta dróst saman um þrjú prósent milli ára og var 4,85 milljarðar. Við árslok 2019 var eigið fé samstæðu Kaupfélags Skagfirðinga tæpir 40 milljarðar og eiginfjárhlutfall stóð í ríflega 57 prósentum. Kaupfélagsstjóri Skagfirðinga er Þórólfur Gíslason, en hann hefur gegnt því starfi frá árinu 1988.

Undir samstæðu Kaupfélags Skagfirðinga falla eignarhlutir í alls 19 dótturfélögum. Þeirra stærst og veigamest er útgerðin FISK Seafood, sem á um 5,3 prósent hlutdeild af útgefnu aflamarki mælt í þorskígildistonnum, að því er kemur fram í gögnum Fiskistofu. Frystitogarinn Arnar er gerður út frá Skagaströnd og ferskfiskskipin Málmey og Drangey frá Sauðárkróki. Loks eru tvö ísfiskveiðiskip gerð út frá Grundarfirði. Ásamt því að reka fiskvinnslu og útgerð, starfrækir FISK Seafood bleikjueldi á Hólum í Hjaltadal og í Þorlákshöfn.

Meðal annarra dótturfélaga Kaupfélags Skagfirðinga er matvælafyrirtækið Esja Gæðafæði, Fóðurblandan, Sláturhús Kaupfélags Vestur-Húnvetninga og matvælaframleiðandinn Vogabær, en vörumerki Mjólku og E. Finnssonar eru undir hatti Vogabæjar.