PFA, stærsti lífeyrissjóður Danmerkur, auk norðurevrópska fjárfestingasjóðsins VIA equity hafa keypt 30 prósent hlut í upplýsingatæknifyrirtækinu Advania AB.

Með kaupunum bætast sjóðirnir í hóp eigenda að Advania sem varð til árið 2012 við samruna nokkurra upplýsingatæknifyrirtækja á Norðurlöndum. Nordic Mezzanine, sænskir fjárfestar og norrænir lykilstjórnendur Advania keyptu meirihluta í félaginu tveimur árum síðar og einsettu sér að auka vöxt og arðsemi þess. 

Advania hefur vaxið þónokkuð síðan þá. Í fyrra jukust tekjur félagsins um 60% milli ára og námu SEK 2.804m (ISK 35.031m) og jókst EBITDA um 59% milli ára og nam SEK 258m (ISK 3.223m).

„Starfsfólkið er verðmætasta auðlind Advania og það sem gerir okkur samkeppnishæf. Við höfum verið svo lánsöm að laða að okkur margt hæfileikaríkasta fólkið í geiranum sem sameinast í að skapa verðmæti fyrir viðskiptavini okkar. Sú stefna og dugnaður er forsenda fyrir velgengni okkar. 

Við hlökkum til að vinna með nýjum hluthöfum sem deila þessari sýn og koma með sérfræðiþekkingu sem mun efla okkur á komandi árum. Það eru spennandi tímar framundan,“ er haft eftir Gesti G. Gestssyni, forstjóra Advania, vegna kaupanna.