Stefnt er á að hefja formlegar viðræður í vikunni um kaup á Bændahöllinni sem áður hýsti Hótel Sögu, fyrir Háskóla Íslands. Kanna á til hlítar hvort hægt sé að komast að niðurstöðu um kaup á eigninni á ásættanlegu verði fyrir báða aðila. Þetta segir Jón Atli Benediktsson, rektor háskólans, við Markaðinn.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið sem fer með almennt fyrirsvar fasteigna ríkisins mun leiða samningaviðræður í samstarfi við Háskóla Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytið. „Vonast er til að endanleg niðurstaða um hvort af kaupunum verði muni liggja fyrir fljótlega,“ segir Jón Atli.

Vongóður

Sigurður Kári Kristjánsson, sem var skipaður aðstoðarmaður við fjárhagslega endurskipulagningu félaganna, segist í samtali við Markaðinn vera vongóður um að viðræðurnar skili árangri.

Bændahöllin, félag í eigu Bændasamtaka Íslands sem á umrædda fasteign, og Hótel Saga, félag í eigu samtakanna sem hafði með höndum rekstur hótelsins, eru í greiðsluskjóli, eins og fleiri fyrirtæki í ferðaþjónustu á tímum COVID-19. Sú heimild gildir til 7. apríl. Halla tók undan rekstrinum fyrir heimsfaraldurinn því hótelið var rekið með 618 milljóna króna tapi á árunum 2017 til 2019.

Viljað flytja menntasvið frá 2008

Fram kom í Markaðnum í febrúar að Háskóli Íslands horfi til þess að flytja menntasvið skólans frá Stakkahlíð í bygginguna. Jafnframt sé til skoðunar að þar verði skrifstofur, tæknideild og stúdentagarðar. Háskólinn er með mikla starfsemi í grennd við Bændahöllina. Stefnt hafi verið á að flytja menntasvið frá því að Háskóli Íslands sameinaðist Kennaraháskólanum árið 2008.

Jón Atli sagði við það tilefni að það væri ódýrara að festa kaup á Bændahöllinni, að gefnum tilteknum forsendum, en að byggja nýtt húsnæði. Eignin krefjist einhverra endurbóta til að aðlaga hana að skólastarfinu.