Aðdragandi þess að Bain Capital hefur samið um að leggja Icelandair Group til 8,1 milljarð króna í nýtt hlutafé var að flugfélagið tók ákvörðum í byrjun árs um að tveimur Boeing 767- þotum í fraktvélar. „Þá var farið að leita að aðilum sem myndu annars vegar kaupa vélarnar og hins vegar fjármagna breytingarnar og við myndum leigja þær til baka. Bain Capital kemur að því og þá þurftu þeir að skoða mjög vel þann aðila sem verið er að semja við. Það var upp úr því sem þeir nálguðust okkur og veltu fyrir sér möguleikanum á því að geta orðið hluthafar í félaginu,“ segir Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair Group, í samtali við Morgunblaðið.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Bain Capital muni eignast 16,6 prósenta hlut í Icelandair að því gefnu að hluthafafundur samþykki hlutafjáraukninguna. Skömmu eftir að Kauphöllin opnaði í gær höfðu hlutabréfin hækkað um 16 prósent og því fögnuðu fjárfestar tíðundunum.

Margir fjárfestar og sérfræðingar á markaði hafa verið meðvitaðir um að Icelandair myndi að öllum líkindum auka hlutaféð um þessar mundi enda hefur flugfélagið gengið á lausafé sitt að undanförnu í ljósi þess að reksturinn hefur legið meira og minna niðri vegna COVID-heimsfaraldursins en það krefst lausafjár að koma flugrekstri aftur af stað. Hlutafjáraukningin dregur úr líkum þess að félagið dragi á lánalínu sína sem er með ríkisábyrgð.

Icelandair sótti aukið hlutafé fyrir níu mánuðum til að mæta þeim áskorunum sem fylgja því að reksturinn myndi liggja meira og minna niðri um nokkurt skeið. Athygli vekur að verðið sem Bain mun kaupa hlutaféð á er 43 prósent yfir útboðsgenginu fyrir níu mánuðum.

Bain Capital á rætur að rekja til ráðgjafafyrirtækisins Bain & Co. sem er á meðal þekktustu ráðgjafafyrirtækja í heimi og er oft nefnt í sömu andrá og McKinsey og Boston Consulting Group.

Raunar var Bain & Co. stofnað af fyrrverandi meðeiganda Boston Consulting Group árið 1973 í því skyni að keppa við sinn gamla vinnustað. Fyrirtækið byggði á þeim tíma á þeirri sérstöðu að veiti ekki eingöngu ráðgjöf heldur aðstoðaði viðskiptavini við að koma henni til framkvæmda.

Árið 1984 stofnuðu meðeigendur Bain & Co. fjárfestingafélagið Bain Capital. Á meðal stofnenda var Mitt Romney , sem gerði tvær tilraunir til að verða forseti Bandaríkjanna, og stýrði hann félaginu um árabil. Romney seldi hlut sinn í Bain Capital um aldamótin.

Hugmyndin að Bain Capital var að fjárfesta í fyrirtækjum og nýta þekkingu starfsmanna Bain & Co. til að bæta rekstur þeirra. Bain Capital fjárfesti fyrst einvörðungu í óskráðum fyrirtækjum en frá árinu 1996 hefur það einnig fjárfest í fyrirtækjum sem skráð eru á markað. Bain Capital festir einnig kaup á skuldabréfum. Bain Capital Credit sá til að mynda tækifæri í því að kaupa portúgölsk og spænsk vandræðalán á árinu 2017.

Bain Capital, sem er með 1.200 starfsmenn, er með um 130 milljarða Bandaríkjadala í stýringu fyrir fjárfesta.

Fram kom í tilkynningu til Kauphallarinnar að Bain Capital eigi fjölbreytt eignasafn í flugtengdum rekstri. Sumarið 2020 keypti Bain Capital til að mynda Virgin Australia sem komið var að fótum fram vegna COVID-19 heimsfaraldursins.

Fram kom í tilkynningu til Kauphallarinnar í mars að Titan Aircraft Investments, sem sé samstarfsverkefni Bain Capital Credit og Titan Aviation Holdings, hafi keypt tvær Boeing 767 þotur af Icelandair í mars og leigi þær íslenska félaginu aftur til tíu ára. Breyta á farþegavélunum í fraktflugvélar vorið 2022, eins og Úlfar vísaði til fyrr í fréttinni.