Katrín Olga Jóhannesdóttir, fráfarandi formaður Viðskiptaráðs, segir Samkeppniseftirlitið ekki eiga að stjórna íslensku viðskiptalífi. Stofnunin eigi að vera með vakandi auga og fylgja sanngjörnu eftirliti en ekki vera sá sem stýrir þróun á markaði.

„Við þurfum að horfast í augu við allar þær breytingar sem eru framundan og Samkeppniseftirlitið getur ekki verið dragbítur í þeim efnum,“ sagði Katrín Olga í ávarpi sínu á Viðskiptaþingi sem haldið er í Hörpu í dag.

„Það þarf að aðlaga sig að breyttum heimi viðskipta og breyttri stjórnun með framtíðarleiðtogahæfni þar sem samvinna vegur þungt,“ nefndi Katrín Olga. Það ætti sérstaklega við í ljósi þess að við byggjum við matskennda löggjöf.

Katrín Olga, sem tók við embætti formanns Viðskiptaráðs árið 2016, fór í ávarpi sínu yfir farinn veg og beindi sérstaklega sjónum að því sem betur mætti fara í samkeppnismálum.

„Í þau fjögur ár sem ég hef starfað sem formaður Viðskiptaráðs höfum við beitt okkur fyrir breytingum í þeim efnum en því miður hefur staðan lítið breyst og enn þá er Samkeppniseftirlitið með hreðjatak á stjórnvöldum og viðskiptalífinu.

Beðið er marga mánuði eftir niðurstöðu í samrunamálum og oft á tíðum þegar niðurstaða kemur vekur hún furðu. Fyrirtækjum er haldið í gíslingu stofnunarinnar með því að viðhalda málum sem ekki eru kláruð og svo mætti lengi telja.

Enginn forráðamaður fyrirtækja þorir að stíga fram af ótta við að vera hengt fyrir slíkt. Hér er verið að misbeita valdi,“ sagði Katrín Olga. Það væri ekki boðlegt.

Hún sagði auk þess að það væri með ólíkindum að eftirlitinu tækist trekk í trekk að láta íslensk fyrirtæki líta út eins og sakamenn og þá sem vilja neytendum alls hins versta.

„Ég hafna alfarið þeim málatilbúnaði,“ sagði Katrín Olga. „Neytendur skipta viðskiptalífið höfuðmáli. Hér er alið á við og þið hugsunarhætti.“