Ferðaskrifstofan Katla DMI tapaði 36 milljónum króna á síðasta ári samanborið við 11 milljóna króna hagnað árið á undan. Þá drógust rekstrartekjur félagsins mikið saman en þær námu 85 milljónum árið 2020 samanborið við 552 milljónir árið 2019.

Í nýbirtum ársreikningi félagsins kemur fram að félagið hafi orðið fyri verulega neikvæðum áhrifum af Codid-19 heimsfaraldrinum, þá sérstaklega til skamms tíma. Félagið hafi og hyggist nýta sér úrræði sem stjórnvöld bjóða upp á Jafnframt kemur fram að ekki sé talinn vafi á rekstrarhæfi félagsins vegna þessa enn sem komið er. Á árinu 2020 voru tekjufærðir styrkir vegna úrræða stjórnvalda 13,7 milljónir.

Eigið fé félagsins í árslok 2020 nam 45 milljónum samanborið við 81 milljón í lok árs 2019. Eignir félagsins á síðasta ári voru 120 milljónir samanborið við 186 milljónir árið á undan.

Félagið er í eigu þeirra Bjarnheiðar Hallsdóttur, formanns Samtaka ferðaþjónustunnar, og Péturs Óskarssonar. Félagið sérhæfir sig í að fá þýska ferðamenn hingað til lands.