Samgöngustofa Lundúna, eða The Transport for London, hefur ákveðið að hætta að birta allar auglýsingar sem sýna Katar sem æskilegan áfangastað eða hvetja fólk til að mæta á heimsmeistaramótið sem þar fer nú fram.

Ákvörðunin er í samræmi við bresk lög frá 2019 sem banna auglýsingar frá þeim þjóðum sem heimila dauðarefsingu við samkynhneigð og gildir bannið í öllum lestum og strætisvögnum borgarinnar. Katar er eitt ellefu ríkja sem talin eru „líkleg“ til að beita dauðarefsingu fyrir samkynhneigð.

Samgöngustofan segir að bannið nái einnig yfir auglýsingar sem kynna ferðalög til Katar og ferðaþjónustuna þar í landi. „Auglýsingar sem auglýsa miðasölu eða hvetja fólk til að mæta á leiki eða aðra viðburði í Katar eru ekki taldar ásættanlegar að svo stöddu,“ segir í tilkynningu frá samgöngustofunni.

Sem svar við þessari ákvörðun sögðu katarskir fjárfestar í samtali við dagblaðið Financial Times að allar fjárfestingar af þeirra hálfu í bresku höfuðborginni verði nú endurskoðaðar. Fjárfestingarsjóður Katar hefur á undanförnum misserum fjárfest gríðarlega í nokkrum af þekktustu fyrirtækjum og kennileitum Bretlands, þar á meðal lúxusversluninni Harrods og Shard háhýsinu.