Snjalltæki Miklar líkur eru á að íslensku raddirnar Karl og Dóra hætti að virka ef notendur uppfæra í Android 11 stýrikerfi. Blindrafélagið mælir ekki með að uppfæra í stýrikerfið.

Karl og Dóra voru settar á markað fyrir Windows stýrikerfið árið 2012 og stuttu síðar var Dóra aðgengileg fyrir Android. Í tilkynningu félagsins segir að margir notendur reiði sig á raddirnar við skjálestur og við alla notkun snjalltækja auk tölvunotkunar, á meðan aðrir nýta þær í námi, við lestur frétta eða jafnvel yndislestur. Stór hópur fólks nota þau Karl og Dóru í sínum tækjum daglega og segir félagið að það sé sorglegt að engar aðrar lausnir í vændum.

Blindrafélagið hefur unnið að viðhaldi raddanna frá upphafi, en eftir að Amazon keypti IVONA, framleiðanda íslensku raddanna, hafa aðlaganir orðið erfiðari með árunum. Í tilkynningunni segir að árið 2019 hafi gert Google breytingar á skilmálum sínum þar sem hugbúnaður verður einnig að vera aðgengilegur í svokallaðri 64 bita útgáfu. Raddirnar eru aðeins til í 32 bita útgáfu og því ljóst að Karl og Dóra muni hverfa úr hugbúnaðarverslun Google í ágúst 2021.