Landareignarsjóður bresku krúnunnar hefur kært bandaríska samfélagsmiðilinn Twitter undir eigu Elon Musk vegna vangoldinna fasteignagjalda þar sem miðillinn hefur höfuðstöðvar sínar á landareign krúnunnar í London. El País greinir frá.
Þar kemur fram að svo virðist vera sem stjórnendur Twitter þar sem Musk er framkvæmdastjóri hafi láðst að greiða leigu vegna skrifstofuhúsnæðis á fleiri stöðum, meðal annars í San Francisco og Singapore. Musk eignaðist samfélagsmiðilinn í október og hefur síðan þá leitað leiða til þess að rétta af reksturinn.
Hefur hann meðal annars sagt upp helmingi starfsfólks miðilsins og kynnt nýjar áskriftarleiðir á miðlinum sem áður var alfarið frír. Meðal áskriftarleiða er tækifærið til þess að kaupa sér bláa stimpilinn svokallaða sem hingað til var einungis ætlaður opinberum eða vel þekktum einstaklingum og stofnunum.
Segir í umfjöllun El País að matsfyrirtækið Moody's hafi hætt að meta lánshæfi Twitter vegna ónægra upplýsinga um burði fyrirtækisins. Ákvörðun stjórnenda um að hætta að borga leigu fyrir skrifstofuhúsnæðið gefi hinsvegar ákveðna mynd af stöðu rekstursins, að því er segir í El País.
Endalausir milljarðar í landareignum konungsfjölskyldunnar
Breska konungsfjölskyldan er meðal stærstu landeigenda í Bretlandi. Landareignir í hennar eigu eru metnar á yfir 19 milljarða Bandaríkjadala eða því sem nemur rúmum 2740 milljörðum íslenskra króna.
241 þeirra er að finna í miðbæ London auk veðreiðabrauta, bóndabýla, skóga og strandlína sem samanstanda af 1,4 prósent af öllu landflæmi Bretlandseyja. Þó að fasteignasjóður krúnunnar sé stýrt af konungsfjölskyldunni er ekki um að ræða einkafyrirtæki heldur sjálfstæðan sjóð og eru tekjurnar nýttar af hinu opinbera.
Þó fær konungsfjölskyldan 15 prósent af árlegum tekjuafgangi sjóðsins og eru þær tekjur allajafna nýttar til að fjármagna fjölskylduna og skyldustörf hennar. Þess er getið í umfjöllun El País að Karl hafi hinsvegar ákveðið að tekjur úr sjóðnum renni til vindorkuvera í stað þess að þær fari til konungsfjölskyldunnar.
We have today announced the signing of Agreements for Lease for six #OffshoreWind projects for Leasing Round 4 - a major milestone that could see c.8GW of #GreenElectricity generated by the end of the decade, enough to power more than 7 million homes. https://t.co/GTCu73pjqN pic.twitter.com/O7kugEWkYP
— The Crown Estate (@TheCrownEstate) January 19, 2023