Landar­eignar­sjóður bresku krúnunnar hefur kært banda­ríska sam­fé­lags­miðilinn Twitter undir eigu Elon Musk vegna van­goldinna fast­eigna­gjalda þar sem miðillinn hefur höfuð­stöðvar sínar á landar­eign krúnunnar í London. El País greinir frá.

Þar kemur fram að svo virðist vera sem stjórn­endur Twitter þar sem Musk er fram­kvæmda­stjóri hafi láðst að greiða leigu vegna skrif­stofu­hús­næðis á fleiri stöðum, meðal annars í San Francisco og Singa­por­e. Musk eignaðist sam­fé­lags­miðilinn í októ­ber og hefur síðan þá leitað leiða til þess að rétta af reksturinn.

Hefur hann meðal annars sagt upp helmingi starfs­fólks miðilsins og kynnt nýjar á­skriftar­leiðir á miðlinum sem áður var al­farið frír. Meðal á­skriftar­leiða er tæki­færið til þess að kaupa sér bláa stimpilinn svo­kallaða sem hingað til var einungis ætlaður opin­berum eða vel þekktum ein­stak­lingum og stofnunum.

Segir í um­fjöllun El País að mats­fyrir­tækið Moo­dy's hafi hætt að meta láns­hæfi Twitter vegna ó­nægra upp­lýsinga um burði fyrir­tækisins. Á­kvörðun stjórn­enda um að hætta að borga leigu fyrir skrif­stofu­hús­næðið gefi hins­vegar á­kveðna mynd af stöðu rekstursins, að því er segir í El País.

Endalausir milljarðar í landareignum konungsfjölskyldunnar

Breska konungs­fjöl­skyldan er meðal stærstu land­eig­enda í Bret­landi. Landar­eignir í hennar eigu eru metnar á yfir 19 milljarða Banda­ríkja­dala eða því sem nemur rúmum 2740 milljörðum ís­lenskra króna.

241 þeirra er að finna í mið­bæ London auk veð­reiða­brauta, bónda­býla, skóga og strand­lína sem saman­standa af 1,4 prósent af öllu land­flæmi Bret­lands­eyja. Þó að fast­eigna­sjóður krúnunnar sé stýrt af konungs­fjöl­skyldunni er ekki um að ræða einka­fyrir­tæki heldur sjálf­stæðan sjóð og eru tekjurnar nýttar af hinu opin­bera.

Þó fær konungs­fjöl­skyldan 15 prósent af ár­legum tekju­af­gangi sjóðsins og eru þær tekjur alla­jafna nýttar til að fjár­magna fjöl­skylduna og skyldu­störf hennar. Þess er getið í um­fjöllun El País að Karl hafi hins­vegar á­kveðið að tekjur úr sjóðnum renni til vindorku­vera í stað þess að þær fari til konungs­fjöl­skyldunnar.