Kári Guðjón Hallgrímsson, stjórnandi á skuldabréfasviði fjárfestingabankans JP Morgan í London, hefur eignast eins prósenta hlut í VÍS. Markaðvirði hlutarins er 326 milljónir króna. Þetta má lesa úr nýjum hluthafalista tryggingafélagsins en félag Kára Þórs var ekki að finna á lista yfir 20 stærstu við áramót.

Við árslok 2019 átti fjárfestingafélag Kára Guðjóns hlut í VÍS sem bókfærður var á 32,5 milljónir króna, að því er fram kemur í ársreikningi.

Kaupin fóru fram í gegnum fjárfestingafélagið Vindhamar. Félagið hagnaðist um 105 milljónir króna árið 2019. Eignir þess námu 931 milljón króna við árslok 2019 en félagið var einkum fjármagnað með láni frá Kára Guðjóni.

Vindhamar á meðal annars 2,1 prósenta hlut í fjárfestingafélaginu Stoðum. Stoðir eru á meðal stærstu hluthafa Arion banka, Símans, TM og Kviku.

Félagið á sömuleiðis 29 prósenta hlut í Múrbúðinni sem bókfærður var á 82 milljónir króna og hlut í Völku sem bókfærður var á 238 milljónir króna, samkvæmt ársreikningi ársins 2019.

Við árslok 2019 átti Vindhamar skráð hlutabréf sem bókfærð voru á 286 milljónir króna. Um er að ræða: Sjóvá (94 milljónir króna), TM (53 milljónir), Iceland Seafood (41 milljón), Síminn (40 milljónir), VÍS (33 milljónir) og Eimskip (26 milljónir).