Ís­lensk sjávar­út­vegs­fyrir­tæki seldu um 16 þúsund tonn af fiski til Kanada á fyrstu sex mánuðum ársins í saman­burði við 7,8 þúsund tonn á sama tíma­bili í fyrra.

Á fyrstu sex mánuðum 2019 seldust einnig um 7,8 þúsund tonn af fiski til Kanada og er því um að ræða 100 prósent aukningu frá árunum áður en Co­vid- far­aldurinn skall á.
Þorskurinn skarar fram úr öðrum fisk­tegundum en Kanada­menn keyptu 2.910 tonn af þorski að verð­mæti 3,7 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins. Til saman­burðar seldust 1.435 tonn á sama tíma­bili árið 2020 og 1.469 tonn árið 2019.

Þetta kemur fram svörum Aðal­ræðis­skrif­stofu Ís­lands í New York við fyrir­spurn Frétta­blaðsins um fisk­út­flutning til Banda­ríkjanna og Kanada. Allt stefnir í met­ár í ís­lenskri fisk­sölu í Kanada og þá er markaðurinn í Banda­ríkjunum að taka við sér eftir Co­vid.

Þá er einnig gríðar­lega aukning í sölu á karfa en alls seldist 3.068 tonn af karfa í Kanada frá janúar til júní í ár til saman­burðar við 1.283 tonn árið 2020. Verð­mæti fisksins hefur einnig aukist en ekki í sam­ræmi við magn­aukninguna. Ís­lensk sjávar­út­vegs­fyrir­tæki seldu fisk til Kanada fyrir 7,3 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins sem er 3,8 milljarðar aukning frá 2020.

Fyrir Co­vid-far­aldurinn, fyrstu sex mánuði ársins 2019, seldist fiskur fyrir 3,2 milljarða til Kanada.

Frosinn fiskur við Grindarvíkurhöfn
Fréttablaðið/Anton Brink

Sóknarmöguleikar í útflutningu á ferskum laxi

Fisk­sala í Banda­ríkjunum jókst einnig til muna og seldust alls 17,6 þúsund tonn af fiski í Banda­ríkjunum á fyrstu sex mánuðum ársins sem er um 4,5 þúsund tonna aukning frá fyrstu mánuðum ársins 2020.
Heildar­sala á ís­lenskum fiski árið 2020 nam 25 þúsund tonnum. Verð­mæti sölunnar jókst einnig um 2,2 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins í saman­burði við sama tíma­bil í fyrra.

Kristján Þór Júlíus­son sjávar­út­vegs­ráð­herra segir tölurnar vera afar á­huga­verðar á sama tíma og hann fagnar þessum vexti ís­lenskra fyrir­tækja á er­lendum mörkuðum.

„Vonandi eru þær merki um að þessi mikil­vægi markaður fyrir ís­lenskar sjávar­af­urðir sé að taka betur við sér eftir mikinn sam­drátt í upp­hafi Co­vid-far­aldursins,“ segir Kristján og bætir við að ís­lensk fyrir­tæki séu einnig að sjá fyrir mikla sóknar­mögu­leika í út­flutningi á ferskum laxi með skipum vestur um haf.

Aukning er á öllum tegundum af fiski til Banda­ríkjanna á tíma­bilinu en sér­stak­lega í laxi og þorski. Þorskurinn er lang­stærsta út­flutnings­varan í þessum flokki en út­flutnings­verð­mæti þorsks jókst um 942 milljónir króna milli ára og nam heildar­salan 8,2 milljörðum króna.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra.
Fréttablaðið/anton

„Banda­ríkin lengi verið mikil­vægur markaður fyrir þorska­furði“

Sala á þorski í Banda­ríkjunum jókst um næstum þúsund tonn á tíma­bilinu á meðan laxút­flutningur jókst um 829 tonn. Þá jókst út­flutningur á loðnu um 687 tonn. Út­flutningur á ferskum fiski til Banda­ríkjanna varð fyrir miklu höggi í far­aldrinum eftir að fjöl­mörgum veitinga­stöðum, hótelum og fisk­borðum í verslunum var lokað. Sala á frystum fiski hélst þó ágæt.

„Banda­ríkin hafa lengi verið mikil­vægur markaður fyrir þorska­furðir og því á­nægju­legt að sjá þennan vöxt milli ára. Þá veit ég til þess að ís­lensku fyrir­tækin sjá fyrir sér mikla sóknar­mögu­leika í út­flutningi á ferskum laxi með skipum vestur um haf,“ segir Kristján Þór.

Svo virðist sem sókn ís­lenskra sjávar­út­vegs­fyrir­tækja með lax sé hafin en alls seldust 1,4 þúsund tonn af laxi í Banda­ríkjunum í ár í saman­borið við 663 tonn í fyrra.

Niku­lás Hannigan, sem tók ný­verið við sem aðal­ræðis­maður og við­skipta­full­trúi á Aðal­ræðis­skrif­stofu Ís­lands í New York, segir veitingageiran vestanhafs vera vakna til lífsins.
Ljósmynd/AFP

Niku­lás Hannigan, sem tók ný­verið við sem aðal­ræðis­maður og við­skipta­full­trúi á Aðal­ræðis­skrif­stofu Ís­lands í New York, segir að þetta stafi að hluta til af því að veitinga­markaðinn sé að taka hægt og ró­lega við sér vestan­hafs. „Ég hef ekki verið hér nægi­lega lengi til að fá til­finningu fyrir hvað er ná­kvæm­lega að gerast en frá því ég flutti hingað til New York eru veitinga­staðir að opna meira,“ segir Niku­lás.

„Veitinga­staðir í New York-borg fluttu alla út á götu upp­haf­lega en sá geiri er í upp­sveiflu núna. Veitinga­staða­geirinn er svona þrjá­tíu til fjöru­tíu prósent af því sem hann var. Þeir veitinga­staðir sem eru opnir eru ekki fullir og það eru margir staðir enn lokaðir,“ segir Niku­lás.

Sam­kvæmt Sam­tökum fyrir­tækja í sjávar­út­vegi gæti aukin eftir­spurn eftir ís­lenskum fiski verið vegna þess að Kín­verjar eiga erfitt með að afla sér hrá­efnis vegna erfið­leika í flutnings­málum. Einnig hefur flutnings­verð marg­faldast frá Kína til Banda­ríkjanna en Kína er einn stærsti inn­flytjandi og út­flytjandi á fiski í heiminum.

Sala á íslenskum fiski til Kanada undanfarin þrjú ár
Mynd/Fréttablaðið