Hópur áhrifamikilla bandarískra lögfræðinga hefur hvatt Bandaríkjaþing til þess að herða þarlenda löggjöf um innherjaviðskipti með því að gera innherja ábyrga fyrir ólögmætri miðlun innherjaupplýsinga jafnvel þótt þeir hafi ekki hagnast sjálfir á miðluninni.

Starfshópur undir forystu Preet Bharara, fyrrverandi alríkissaksóknara, gaf fyrr í dag út skýrslu þar sem lagt er til að skilyrði um auðgunarásetning verði fellt úr drögum að frumvarpi að nýjum lögum um innherjaviðskipti. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti frumvarpið með miklum meirihluta atkvæða í liðnum mánuði en öldungadeildin á enn eftir að greiða atkvæði um það.

„Ef víðtækt hagnaðarskilyrði er fyrir hendi eru auðugir innherjar sem stela upplýsingum frá fyrirtækjum sínum til hagsbóta fyrir vini eða fjölskyldumeðlimi lausir allra mála,” segir Bharara í samtali við Financial Times. Það sé með öllu ósanngjarnt og þurfi að banna með lögum.

Sú regla hefur þróast í bandarískri dómaframkvæmd, meðal annars með dómi Hæstaréttar Bandaríkjanna í máli Dirks gegn bandaríska verðbréfaeftirlitinu frá árinu 1983, að innherji þurfi að hafa hagnast sjálfur á miðlun innherjaupplýsinga til þess að hann geti talist hafa gerst sekur um innherjasvik. Auðgunarásetningur hefur með öðrum orðum verið talinn skilyrði refsinæmis.

Repúblikanar í fulltrúadeildinni lögðu við meðferð áðurnefnds þingmáls ríka áherslu á að umrætt skilyrði yrði ekki fellt brott úr lögunum. Þannig lét þingmaðurinn Patrick McHenry, sem situr í nefnd fulltrúardeildar um fjármálaþjónustu, það hafa eftir sér að skilyrðið væri til þess fallið að vernda þá sem miðluðu innherjaupplýsingum í góðri trú.

Áðurnefndur Bharara stýrði á árunum 2009 til 2017 rannsóknum á viðamiklum innherjasvikamálum, meðal annars gegn Rajat Gupta, Raj Rajaratnam og SAC Capital. Bakslag kom í rannsóknirnar eftir að bandarískur áfrýjunardómstóll taldi í tveimur málum að saksóknaranum hafi ekki tekist að færa sönnur á að innherjar, sem höfðu verið ákærðir fyrir innherjasvik, hefðu notið fjárhagslegs ávinnings af því að hafa miðlað viðkvæmum innherjaupplýsingum.