Sjóðastýringarfélagið Júpiter, sem er dótturfélag Kviku banka, hefur komið á fót sjóðnum ACF III slhf. en um að ræða samlagshlutafélag sem mun koma að fjármögnun fyrirtækja. Heildaráskriftarloforð sjóðsins, sem er í eigu flestra af stærstu lífeyrissjóðum landsins, nema 19,5 milljörðum króna og er fjárfestingatímabil hans þrjú ár. Sjóðurinn mun fjárfesta í skuldabréfum og lánum til fyrirtækja, einkum með veði í fasteignum og fastafjármunum.

Ekki hefur verið stofnaður jafn stór fjárfestingasjóður hér á landi síðan Framtakssjóður Íslands var settur á fót í árslok 2009.

Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Júpiters, segir góðan árangur fyrri sjóða og traust fjárfesta endurspeglast í frábærri þátttöku í ACF III. „Sjóðurinn er sá stærsti sinnar tegundar á Íslandi og stofnun hans er afar jákvætt skref í örum vexti og uppbyggingu Júpiters.“ Vinna við stofnun sjóðsins hófst í janúar á þessu ári.

Þorkell Magnússon, forstöðumaður sjóðastýringar hjá Júpíter, er framkvæmdastjóri ACF III.

Júpiter, sem er með heildareignir í stýringu að fjárhæð um 150 milljarða króna, rekur fyrir fjölmarga sjóði sem koma að fjármögnun fyrirtækja með mismunandi hætti.

Sé litið til stærðar ACF III þá nemur umfang sjóðsins um tveimur þriðju af lánabók Kviku banka en hún var tæplega 31 milljarður króna í lok fyrsta ársfjórðungs.

Framkvæmdastjóri sjóðsins er Þorkell Magnússon, forstöðumaður sjóðastýringar hjá Júpíter, en hann hefur komið að fjármögnun fyrirtækja í meira en áratug.

Þorkell segir þetta ánægjulega niðurstöðu eftir langt og stíft ferli á óvenjulegum tímum. „Eins og hjá fyrri sjóðum í rekstri félagsins leggjum við áherslu á að finna áhugaverða fjárfestingakosti og um leið bæta kjör fyrirtækja,“ segir hann

Hagnaður Júpiters eftir skatta í fyrra nam rúmlega 260 milljónum króna borið saman við 82 milljónið árið áður. Eignir í stýringu jukust um tæplega 30 milljarða í fyrra.