Undanfarin misseri hefur umræða um húsnæðismál verið ofarlega á baugi og mismunandi skoðanir á því hvers vegna staðan sé eins og hún er og hvert beri að stefna. Flestir eru þó sammála um að síðustu ár hafi einkennst af skorti á framboði á nýju húsnæði.

Í fréttatíma Ríkusútvarpsins þann 30. nóvember síðastliðinn sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og húsnæðismálaráðherra, að verið væri að skoða svokallað „leiguþak“ í ráðuneytinu. Innan hagfræðinnar eru lagaúrræði til að knýja fram verðlækkanir á markaði og afleiðingar þeirra vel þekkt og vel rannsökuð.

Meginafleiðing slíkrar lagasetningar er jafnan skortur á viðkomandi vöru. Leiguþak myndi leiða til þess að sumir íbúðaeigendur myndu selja íbúðir frekar en að leigja þær og fjárfestar myndu hætta við að fjárfesta í íbúðarhúsnæði til útleigu. Draga myndi úr nýframkvæmdum á íbúðahúsnæði. „Leiguþak“ myndi þannig auka skort á leiguhúsnæði á sama tíma og húsnæðisskortur er í sögulegu hámarki.

Reynsla nágrannaþjóða okkar hefur sýnt að „leiguþak“ bitnar sérstaklega illa á ungu fólki og innflytjendum sem hyggja á búsetu. Hið svokallaða „leiguþak“ gerir því núverandi vanda húsnæðismarkaðarins erfiðari viðfangs. Það þarf því ekki að koma á óvart að flestar þjóðir sem innleitt hafa hið svokallaða „leiguþak“ hafi leitað leiða til að afnema það. Því miður hefur reynslan sýnt að erfitt getur verið að vinda ofan af illa ígrunduðu kerfi eftir að það kemst á.

Húsnæðismál eru vandasamt viðfangsefni og mikilvægt að stjórnvöld vandi alla stefnumótun og hafi samráð við þá aðila sem að málinu koma, meðal annars sveitarfélög, framkvæmdaraðila, fjármálastofnanir og fleiri. Það kann ekki góðri lukku að stýra að endurtaka mistök annarra þjóða. 

Höfundur er efnahagsráðgjafi GAMMA Capital Management.