Nýkjörin stjórn Símans hefur skipt með sér verkum. Jón Sigurðsson hefur verið kjörinn stjórnarformaður og Helga Valfells hefur verið kjörin varaformaður.

Jón, sem kom nýr inn í stjórn Símans ásamt Kolbeini Árnasyni lögmanni eftir stjórnarkjör á hluthafafundi fjarskiptafélagsins í dag, er stjórnarformaður fjárfestingafélagsins Stoða, stærsta hluthafa Símans með rúmlega 14 prósenta hlut.

Endurtaka þurfti stjórnarkjörið þar sem niðurstaðan var ekki í samræmi við samþykktir félagsins. Samkvæmt þeim skal hlutfall hvors kyns innan stjórnar ekki vera lægra en 40 prósent. Náist ekki fullnægjandi hlutföll þarf að kjósa aftur.

Samkvæmt heimildum Markaðarins var niðurstaða fyrsta stjórnarkjörsins sú að Jón Sigurðsson og Bjarni Þorvarðarson fengu flest atkvæði. Kolbeinn Árnason var í þriðja sæti, Bertrand Kan í fjórða sæti og Sylvía Kristín Ólafsdóttir í því fimmta. Fæst atkvæði fékk Helga Valfells og fékk hún ekki stjórnarsæti samkvæmt fyrsta kjöri.

Niðurstaðan eftir endurtöku stjórnarkjörsins var síðan sú að Helga fékk stjórnarsæti í stað Bertrands Kan. Var niðurstaðan þá í samræmi við samþykktir félagsins.

Stjórn Símans skipa nú Bjarni Þorvarðarson, Helga Valfells, Jón, Kolbeinn og Sylvía Kristín Ólafsdóttir.