Stjórn Haga var kjörin á hluthafafundi nú í morgun. Niðurstaðan varð sú að fara að óskum tilnefninganefndar. Jón Ásgeir Jóhannesson, fjárfestir og stofnandi Bónus, hafði ekki hlotið náð fyrir augum nefndarinnar, en var næstur inn í stjórn þegar talið var upp úr kjörkössunum með um þriðjung greiddra atkvæða.

Stjórn Haga skipa:

Eiríkur S. Jóhannsson 1.037 þúsund
Erna Gíslasdóttir 967 þúsund
Davíð Harðarson 894 þúsund
Stefán Árni Auðólfsson 833 þúsund
Katrín Olga Jóhannesdóttir 789 þúsund

Mætt var á fundinn fyrir ríflega 82% hluthafa, og er það líklega ein mesta aðsókn á hluthafafund í skráðu félagi á Íslandi undanfarin ár. Jón Ásgeir og Sandra Hlíf Ocares, annar frambjóðandi sem ekki var á lista tilnefningarnefndar, héldu framboðsræður. Þeir frambjóðenda sem komu nýir í stjórn og voru á lista tilnefningarnefndar kusu að tjá sig ekki á fundinum.

Fyrr í vikunni var kröfu um margfeldiskosningu á hluthafafundi Haga hafnað en samkvæmt heimildum Markaðarins kom krafan frá félögum í eigu Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur sem á alls 4,3 prósenta hlut í smásölurisanum. 

Sjá einnig: 0,05 prósenta hlut vantaði upp á

Margfeldiskosning virkar á þann veg að gildi hvers atkvæðis er margfaldað með fjölda þeirra stjórnarmanna sem kjósa skal, sem eru fimm í tilfelli Haga, og má hluthafi skipta atkvæðamagni sínu, þannig reiknuðu, í hverjum þeim hlutföllum sem hann sjálfur kýs á jafn marga menn og kjósa skal eða færri.

Jón Ásgeir, sem er eiginmaður Ingibjargar Stefaníu, gaf kost á sér til setu í stjórninni en hann var hins vegar ekki á lista tilnefningarnefndar. Vægi atkvæða Jóns Ásgeirs nam 302 þúsundum. Miðað við niðurstöðu fundarins eru allar líkur á því að Jón Ásgeir hefði komist í stjórn hefði margfeldiskosning farið fram.

Ný stjórn hélt stjórnarfund að hluthafafundi loknum og skipti með sér verkum. Erna Gísladóttir var kjörin formaður stjórnar og Davíð Harðarson varaformaður stjórnar.