„Það er alveg ljóst í dag að það er á brattann að sækja fyrir fólk að komast í stjórn sem ekki kemst á lista tilnefningarnefnda,“ segir Jón Ásgeir Jóhannesson fjárfestir. 

Stjórn Haga var kjörin á hluthafafundi nú í morgun og náði Jón Ásgeir ekki kjöri. Niðurstaðan varð sú að fara að óskum tilnefninganefndar en Jón Ásgeir hafði ekki hlotið náð fyrir augum nefndarinnar.

Sjá einnig: Jón Ásgeir komst ekki í stjórn Haga

„Ég velti því fyrir mér hvort það er af hinu góð, og hvort verið sé að skerða rétt smærri hluthafa?“

Þá segir hann að síðustu daga hafi hann fundið fyrir gríðarlegum meðbyr frá minni og meðalstórum hluthöfum og þakkar þann góða stuðning.

Fyrr í vikunni var kröfu um margfeldiskosningu á hluthafafundi Haga hafnað en samkvæmt heimildum Markaðarins kom krafan frá félögum í eigu Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur sem á alls 4,3 prósenta hlut í smásölurisanum. 

Sjá einnig: 0,05 prósenta hlut vantaði upp á

Miðað við niðurstöðu fundarins eru allar líkur á því að Jón Ásgeir, sem er eiginmaður Ingibjargar Stefaníu, hefði komist í stjórn hefði margfeldiskosning farið fram.