Átta manns hafa gefið kost á sér til setu í fimm manna stjórn Skeljungs en kosið verður í stjórn olíufélagsins á hluthafafundi næsta mánudag. Jón Ásgeir Jóhannesson fjárfestir er á meðal frambjóðenda en 365 miðlar, sem eru í eigu Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur, eiginkonu hans, fara með ríflega tíu prósenta hlut í félaginu.

Núverandi stjórnarmenn Skeljungs sækjast allir eftir endurkjöri en það eru þau Ata Maria Bærentsen, Baldur Már Helgason, Birna Ósk Einarsdóttir, Jens Meinhard Rasmussen stjórnarformaður og Kjartan Örn Sigurðsson.

Auk Jóns Ásgeirs og núverandi stjórnarmanna gefa þau Sandra Hlíf Ocares, framkvæmdastjóri Íslenska byggingavettvangsins, og Þórarinn Arnar Sævarsson, fjárfestir og svæðisstjóri RE/MAX á Íslandi, jafnframt kost á sér í stjórnina, að því er fram kemur í tilkynningu Skeljungs til Kauphallarinnar.

Eins og fram hefur komið leggur tilnefningarnefnd Skeljungs til að þau Ata Maria, Baldur Már, Birna Ósk, Jens Meinhard og Jón Ásgeir verði kjörin í stjórnina.

Í tilkynningu Skeljungs til Kauphallarinnar kemur enn fremur fram að margfeldiskosningu verði beitt við stjórnarkjörið að kröfu hluthafa sem hafa yfir að ráða meira en 10 prósent hlutafjár félagsins.

Jafnframt barst stjórn Skeljungs krafa frá 365 miðlum um að fá ákveðin mál tekin til meðferðar á hluthafafundinum eða nánar tiltekið tillögu um hlutafjárlækkun og breytingatillögu sem gengur lengra en samþykktabreytingatillaga stjórnar þess efnis að endurkaupaheimild verði einungis takmörkuð við 10 prósent hlutafjár.

Að fengnu lögfræðiáliti var það niðurstaða stjórnar að vegna eðlis umræddra málefna hefði ekki verið nægilegur fyrirvari til þess að unnt væri að taka málin á dagskrá komandi hluthafafundar. Hluthafinn var hins vegar hvattur til þess að taka málin upp á fundinum og eftir atvikum óska eftir atkvæðagreiðslu sem yrði þá leiðbeinandi fyrir stjórn.

Að öðrum kosti væri hluthafanum unnt að óska eftir nýjum hluthafafundi með beiðni um að málefnin yrðu tekin til umfjöllunar, eftir því sem fram kemur í tilkynningunni.