Íslandsbanki hefur birt greiningu sem bendir til þess að jólin í ár verða töluvert dýrari fyrir landsmenn heldur en í fyrra. Mörg heimili eiga nú þegar erfitt með að ráða við síhækkandi vörukostnað á mat og eldsneyti. Verðbólga og vaxtahækkanir hafa heldur ekki hjálpað þeim bankareikningum sem margir hverjir dansa rétt á núllinu við hver mánaðamót.

Ársverðbólgan mælist nú 9,4 prósent hér á landi og segir á heimasíðu Íslandsbanka að aðeins séu til tvær lausnir, að „reyna að draga úr kostnaði við jólin eða taka verðhækkanirnar á sig með tilheyrandi skelli á heimilisbókhaldið.“

Almennt hafa matvörur hækkað 9 prósent frá síðustu jólum. Svínakjöt hefur hækkað um 12 prósent og lambakjöt um 20 prósent, en hamborgarhryggur og lambakjöt eru vinsælustu jólamáltíðir landsmanna á aðfangadagskvöldi. Malt og appelsín hefur einnig hækkað um 5 prósent og jólabjórinn er núna orðið 4 prósent dýrari en í fyrra. Mjólkin er 9 prósent dýrari og reykt og saltað kjöt hefur einnig hækkað um 18,4 prósent.

Verðhækkanir hafa ekki aðeins haft áhrif á mat og drykk. Fatnaður og skór á fjölskylduna er rúmlega 2 prósent dýrari og verð á jólabókum og jólatónleikum hafa hækkað um 4 prósent. Verð á leikjatölvum og tölvuleikjum hefur að vísu lækkað um 5,1 prósent en.

Engin töfralausn er við þessum hækkunum en Íslandsbanki bendir lesendum einfaldlega á að neyta minna þessi jól og einblína frekar á samverustundir með fjölskyldunni.