Mest varð hækkunin í Heimkaupum og næst mest í Iceland og hátt hlutfall vara í þessum verslunum hækkaði mikið í verði milli ára. Minnst varð hækkunin í Kjörbúðinni, Nettó og Fjarðarkaupum, auk þess sem þær verslanir voru með hæst hlutfall vara sem lækkaði í verði eða hækkað minnst.

Í Heimkaupum hækkaði verði í 68 prósentum tilfella yfir 15 prósent milli ára. Fjórðungur vara þar hækkaði um 15-20 prósent, 19 prósent vara hækkaði um 20-30 prósent og annar fjórðungur um meira en 30 prósent.

Verð lækkaði oftast í Kjörbúðinni, í 36 prósentum tilfella, og næst oftast í Nettó, í 32 prósentum tilfella.

Í Bónus og Krónunni hækkaði stærstur hluti vara á bilinu 5-10 prósent.

Miklar verðhækkanir eru í öllum vöruflokkum, en verð á kjöti hækkar mest milli ára. Í 39 prósentum tilfella hækkar verð á kjöti um 20-30 prósent og í 11 prósent tilvika um 30-40 prósent. Sem dæmi má nefna 27-33 prósent verðhækkun á SS birkireyktum hangikjötsframparti í fjórum af fimm verslunum sem varan fékkst í. Þá hækkar verð á léttreyktum KEA lambahrygg um 25-26 prósent í fimm verslunum og verð á KEA hangilæri minnst um 4,8 prósent en á bilinu 18-41 prósent í öðrum verslunum.

Verð á brauði og kornvöru hækkar oft mikið milli ára og sama má segja um verð á þurrvöru og dósamat þó að verð í báðum flokkum lækki einnig í sumum tilfellum. Sem dæmi má nefna 12-27 prósenta verðhækkanir á brúnni Myllu jólatertu með kremi og 6,5-22 prósenta verðhækkanir á Myllu heimilisbrauði. Þá hækkar verð á Ora grænum baunum á bilinu 14-29 prósent. Verð á mjólkurvöru hækkar einnig almennt mikið eða í 74 prósentum tilfella um 5-20 prósent. Algengast var að verðhækkanir væru á bilinu 9-13 prósent.

Verð á drykkjarvöru þ.e. gosi og safa hækkar hvað minnst en það sama gildir ekki um verð á kaffi sem hækkar í 50 prósentum tilvika á bilinu 15-30 prósent. Þannig hækkar verð á Te og kaffi kaffipúðum t.d. um 17-28 prósent milli ára og verð á möluðu jólakaffi um 15-28 prósent.

Konfekt og sælgæti hækkar einnig minna í verði en flestir aðrir vöruflokkar en hækkar þó mikið í verði í sumum tilfellum. Þannig hækkar verð á 800 gr. Nóa Siríus innpökkuðum konfektkassa t.d. um 12-26,5 prósent í sex verslunum og verð á 2 kg dós af Quality Street um 15-26 prósent í fjórum verslunum. Grænmeti og ávextir er sá vöruflokkur sem verð lækkaði oftast í en að sama skapi sá vöruflokkur sem hvað mestar verðhækkanir voru í en miklar sveiflur geta verið í verði á grænmeti og ávöxtum.

Verðbreytingar þessar eru byggðar á verðmun milli kannana verðlagseftirlits ASÍ frá 15. desember 2021 og 13. desember 2022. Áréttað er að mælt er verð sem er í gildi á hverjum tíma í versluninni og geta tilboðsverð haft áhrif á verðbreytingar einstakra vara. Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Nettó, Bónus, Krónunni, Fjarðarkaupum, Iceland, Hagkaup, Kjörbúðinni og á Heimkaup.is.

Aðeins er um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.