66°Norður hefur gengið til samstarfs við Jöklarannsóknafélagið og mun láta 25% af allri sölu í vefverslun renna til félagsins 26. nóvember í stað þess að vera með sérkjör á svörtum föstudegi. Markmiðið með samstarfinu er að standa vörð um íslensku jöklana og stuðla að aukinni vitundarvakningu um breytingarnar sem eru að eiga sér stað á þeim vegna hlýnunar í andrúmsloftinu. Áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi birtast meðal annars í sjáanlegum breytingum á jöklunum.

Framtíð jökla á Íslandi er mjög háð því hvernig tekst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ef Parísarsamkomulagið raungerist og hlýnun takmarkast við 1.5°C eða 2°C er líklegt að um helmingur Vatnajökuls verði eftir, en líklega munu aðrir jöklar hverfa að mestu á næstu öldum. Frá aldamótum hafa jöklar á Íslandi minnkað um 800 km² (samsvarandi 10 Þingvallavötnum eða einum Hofsjökli) eða um 40 km² á hverju ári að meðaltali (sem samsvarar 8 Grímseyjum eða 4 Snæfellsjöklum á hverju ári) og nokkrir tugir lítilla jökla hafa horfið. Frá því að flestir jöklar voru hvað stærstir í lok 19. aldar hafa þeir tapað tæplega 20% af flatarmáli sínu, jöklarnir hafa því á síðastliðnum 130 árum misst um 2200 km2. Í nýlegri skýrslu sérfræðingahóps Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) segir að bráðnun íss sé ein af aðalástæðunum fyrir hækkandi yfirborði sjávar.

Magnús Tumi Guðmundsson, formaður JÖRFÍ:
„Á þeim rúmlega 70 árum sem Jöklarannsóknafélag Íslands (JÖRFÍ) hefur starfað hafa orðið gríðarlegar breytingar á jöklunum og þeirra nánasta umhverfi. Skálar félagsins sem áður voru nærri jökuljaðri standa víða fjarri þeim nú. Eins hefur landslag við þá skála sem eru inni á jökli, svo sem á Grímsfjalli, í Esjufjöllum og Kverkfjöllum breyst mikið og aðkoman önnur. Mikil hörfun Tungnaárjökuls í suðvestanverðum Vatnajökli hefur gert það að verkum að aðal ferðaleiðin á Vatnajökul er nánast ófær að vori, þegar Jöklarannsóknafélagið leggur í sína árlegu vorferð og hefur því undanfarin ár verið farið um Skálafellsjökul. Jöklarannsóknafélagið heldur utanum lengsta samfellda gagnasafn um breytingar á stöðu jökulsporða sem til er hér á landi, en sjálfboðaliðar félagsins og forverar þeirra hafa sinnt þeim mælingum í 90 ár. Þær eru mikilvægt framlag til vöktunar umhverfisbreytinga sem nú eiga sér stað víða um heim vegna hlýnandi loftslags. Frá því að félagið var stofnað árið 1950 hafa 1200 km2 af landi komið undan jökli. Mikil áhersla hefur verið á að mæla afkomu stærstu jöklanna á síðastliðnum áratugum. Sumir minni jöklanna hafa fengið minni athygli. Þó er víst þekking á afkomu minni jöklanna mun hjálpa okkur að skilja betur hvaða áhrif breytingar í loftslagi hafa. Félagið stefnir því að því í samstarfi við 66°Norður að mæla afkomu nokkurra minni jökla á Suðurlandi, og beinist athyglin einkum að Eyjafjallajökli og Tindfjallajökli. Afkoma þeirra hefur aldrei verið mæld og stuðningur 66°Norður við þetta verkefni skiptir því miklu máli.“

Fannar Páll Aðalsteinsson markaðsstjóri 66°Norður.
„Við höfum haldið svokallaðan Jöklaföstudag undanfarin tvö ár og látið hluta af sölunni renna í mótvægisaðgerðir gegn losun gróðurhúsalofttegunda. Í ár tökum við skrefið lengra með samstarfi við Jöklarannsóknarfélagið. Sjálfbærni hefur verið kjarni í starfsemi 66°Norður frá upphafi og er vörumerkið samofið náttúru Íslands og jöklunum á margan hátt. Við höfum framleitt skjólfatnað fyrir Íslendinga í nærri 100 ár og á þeim tíma hafa átt sér miklar breytingar á jökunum og við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr losun og koma skilaboðum á framfæri til okkar viðskiptavina. Á síðastliðnum árum hefur fyrirtækið brugðist við loftslagsvánni með markvissum aðgerðum og verið meðal annars kolefnishlutlaus frá árinu 2019.“