Vogunarsjóðsstjórinn John Paulsson, sem veðjaði gegn bandaríska húsnæðismarkaðnum í aðdraganda fjármálakrísunnar og uppskar ríkulega, er að loka starfsemi sinni í London. Það er skref í átt að hætta að stýra annarra manna fé. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Síðasti meðeigandinn í London, Orkun Kilic, hefur hætt störfum. Hann stýrði skrifstofunni í London og fjárfestingum í Evrópu.

Paulson & Co hóf að draga saman seglin í London síðla árs 2016 þegar Harry St. John Cooper, sem var meðeigandi og stjórnandi, og þrír aðrir létu af störfum. Þá lauk hluta af leigusamningi fyrirtækisins í borginni. Í stað þess að vera með tvær hæðir á leigu, leigði fyrirtækið eina hæð.

John-Paulson-lítil.jpg

Talsmaður Paulson & Co segir að sjóðurinn The Paulson European Fund hafi verið lítið hlutfall af heildareignum í stýringu. Áfram verði horft til að fjárfesta í Bretlandi og Evrópu.

Paulson sagði í janúar að til skoðunar væri að stýra einungis eigin fjármunum á næstu tveimur árum. Við það mun hann feta í fótspor annarra þekktra vogunarsjóðsstjóra eins og George Soros og Paul Tudor Jones.

Minna en fjórðungur af eignum í stýringu tilheyra öðrum fjárfestum en Paulson, að því er hann upplýsti í janúar.

Það hefur ekki allt leikið í höndunum á Paulson eftir að hann veðjaði á að fasteignabólan í Bandaríkjunum myndi springa fyrir rúmum áratug.

Fyrir þann tíma rak hann lítinn sjóð sem veðjaði meðal annars á sameiningar og yfirtökur fyrirtækja.

Fjárfestar leituðu til hans í stríðum straumi eftir að viðskiptin komust í sviðsljósið og námu eignir í stýringu 38 milljörðum dollara þegar best lét árið 2011.

Eftir fjölmargar misheppnaðar fjárfestingar í gulli, hlutabréfum heilbrigðisfyrirtækja, lyfjafyrirtækja, banka og þýskum ríkisskuldabréfum hafa eignir í stýringu skroppið saman í 8,6 milljarða dollara.

Margir telja að Paulson hafi færst of mikið fang eftir velgengnina og talið sig geta sýnt yfirburði á öllum mörkuðum og fjárfestingastefnum.