Rekstrar­aðili Joe & the Juice á Ís­landi hefur á­kveðið að segja skilið við Lauga­veginn.

Báðum veitinga­stöðum Joe and the Juice í mið­bæ Reykja­víkur var lokað í októ­ber síðast­liðnum þegar sam­komu­tak­markanir í landinu voru hertar.
Til stendur að opna staðinn á Hafnar­torgi á ný í byrjun næstu viku en staðnum á Lauga­vegi hefur verið lokað fyrir fullt og allt.

„Við tókum á­kvöðrun um að loka Lauga­veginum vegna þess að það eru engir ferða­menn lengur og al­mennt lítið líf í mið­bænum. Við horfum hins vegar til fram­tíðar á Hafnar­torginu og trúum því að þar verði mikið líf á næstu árum," segir Guð­ný Agla Jóns­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Joe & The Juice á Ís­landi.

Joe & the Juice hefur rekið tvo veitingastaði á Keflavíkurflugvelli en þeir hafa báðir verið lokaðaðir í tæpt ár núna enda lítil umferð á flugvellinum.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Mikið veltu­högg

Joe & the Juice rak tvo staði á Kefla­víkur­flug­velli en þeim var lokað í apríl á síðasta ári og hafa verið lokaður síðan að undan­skildum sex vikum í sumar. „Það er auð­vitað mikið veltu­högg fyrir okkur að missa út staðina á Kefla­víkur­flug­velli sem hafa verið okkur einna arð­bærastir." Guð­ný Agla segir að fyrir­tækið hafi þó gert ráð­stafanir, sagt upp fólki og ein­blínt á að koma öðrum stöðum í góðan rekstur. Til standi að opna staðina á flugvellinum aftur þegar aðstæður gefi tilefni til.

Miklar breytingar á liðnu ári

Staðirnir á Kefla­víkurfug­velli voru ekki einu staðarnir sem var lokað á síðasta ári en Joe & the Juice í World Class Laugum var einnig lokað í sumar.

„Við færðum þann stað yfir í Fáka­fen þar sem við erum einnig með Gló og Brauð & Co. Eig­endur Joe and the Juice á Ís­landi, Birgir Þór Bielt­vedt, fjár­fest­ir, og Jón Björns­son, for­stjóri Origo eiga einnig í þeim stöðum. Birgir í þeim báðum en Jón í Brauð & Co.

Þá opnaði á dögunum fyrsti Joe & the Juice dri­ve- through staður í heimi á Miklu­brautinni. Að sögn Guð­nýjar Öglu fer sá staður vel af stað.
„Við horfum björtum augum til 2021, erum búin að nýta tíminn vel í að að­laga okkur að nýjum markaði og að­stæðum og sjáum fullt af tækifærum," segir Guð­ný að lokum.