Jesús Munguia hefur verið ráðinn sölustjóri TourDesk. Jesús, sem hefur reynslu af störfum í ferðaþjónustu og sölumálum, kemur til TourDesk frá Skugga hótel þar sem hann stýrði meðal annars sölustarfi í gestamóttöku hótelsins. 

Í tilkynningu frá TourDesk segir að Jesús muni bera ábyrgð á samskiptum við núverandi viðskiptavini, byggja upp ný viðskiptasambönd og taka virkan þátt í uppbyggingu félagsins erlendis.

Jesús er spænskur og hefur búið á Íslandi í rúm tólf ár. Áður hefur hann meðal annars starfað sem leiðsögumaður í lúxusferðum víða um landið fyrir ýmsar ferðaskrifstofur og sem ljósmyndari. Jesús er menntaður í ljósmyndun frá EFTI ljósmyndaskólanum í Madríd á Spáni, ásamt því að hafa lokið námskeiði í leiðsögumennsku á jöklum hér á landi.

 „Við hjá TourDesk erum mjög ánægð með að fá Jesús til starfa hjá okkur. Hann notaði kerfið okkar í starfi sínu hjá Skugga hótel og var söluhæsti aðilinn í öllu kerfinu, sem telur yfir 100 hótel, í tvö ár samfleytt. Þá höfum við tekið okkar fyrstu skref erlendis með TourDesk, og Jesús verður lykilmaður í þeirri uppbyggingu,“ segir Hjörtur Atli Guðmundsson, framkvæmdastjóri TourDesk, ánægður með nýjasta liðsmann fyrirtækisins.

TourDesk er íslenskur hugbúnaður sem einfaldar sölu á dagsferðum og afþreyfingu til ferðamanna. Lausnin er notuð af hótelum, ferðaskrifstofum og einstaklingum víða.