Rapparinn Jay-Z er sá fyrsti í sinni starfs­grein til að verða milljarða­mæringur, að því er fram kemur í um­fjöllun BBC þar sem vitnað er í lista For­bes. Eignir rapparans eru metnar á rúman milljarð banda­ríkja­dollara og er vel­gengni rapparans rakin til þess að hann hafi þróað sín eigin vöru­merki í stað þess að styðja önnur.

Jay-Z skaust upp á stjörnu­himininn árið 1996 með fyrstu plötunni sinni, Rea­sona­ble Doubt. Platan hans The Blu­eprint sem kom út árið 2001 er metin meðal mikil­vægustu gagna í sögu Banda­ríkjanna af þjóð­minja­deild Banda­ríkja­þings. Í frétt BBC kemur jafn­framt fram að eignir eigin­konu Jay-Z, Beyoncé séu metnar á 335 milljónir banda­ríkja­dollara og að sam­eigin­legar eignir þeirra hafi um ára­bil verið metnar á meira en einn milljarð dollara.

Meðal eigna rapparans er tón­list hans, sem metin er á 75 milljónir banda­ríkja­dollara. Þá á hann hluta­bréf í Armand de Brignac kampa­víns­fram­leiðandanum og D'Usse koníaks­fram­leiðandanum sem sam­eigin­lega eru metin á 410 milljónir banda­ríkja­dollara. Þá á hann hlut í leigu­bíla­fyrir­tækinu Uber sem er virði 70 miljóna banda­ríkja­dollara, auk rán­dýrra eigna í New York og Los Angeles. Þá á hann jafn­framt hlut í streymis­þjónustunni Tidal sem nemur 100 milljónum banda­ríkja­dollara og lista­safn að and­virði 50 milljóna.

Í frétt BBC er tekið fram að margir telji að tón­listar­maðurinn Dr. Dre hafi orðið milljarða­mæringur árið 2014 þegar hann seldi heyrnar­tóla­fram­leiðandann Beats en á lista For­bes eru eignir Dr Dre metnar á 770 milljónir banda­ríkja­dollara.