Verktakafyrirtækið Jáverk hagnaðist um 551 milljón króna á síðasta ári samanborið við 533 milljónir króna árið 2017. Eigið fé félagsins nemur tæplega 1,9 milljörðum króna.

Tekjur Jáverks námu 5.196 milljónum króna og drógust saman um rúm tvö prósent. Rekstrargjöld drógust saman um þrjú prósent og námu 4.523 milljónum króna. Þá var fjöldi ársverka 77 samanborið við 80 á árinu 2017.

Á síðasta ári lauk Jáverk við stórfellda uppbyggingu fyrir Bláa lónið sem fól í sér byggingu hágæðaheilsulindar, stækkun lónsins og byggingu lúxushótels. Nýlega var greint frá því að verktakafyrirtækið myndi sjá um byggingu á 72 íbúðum í Árskógum í Mjóddinni fyrir húsnæðissamvinnufélagið Búseta.

Jáverk hefur skilað hagnaði öll ár frá stofnun fyrir utan eitt en fyrirtækið er á 28. starfsári. Gylfi Gíslason er framkvæmdastjóri fyrirtækisins og jafnframt annar eigandi þess.