Icelandair hækkaði mest í janúar.

Á OMX-markaðnum í kauphöllinni hækkaði Icelandair Group mest í janúar, eða um 13,2 prósent. Næstmest hækkaði Skeljungur, eða um 9,9 prósent, og þriðja mesta hækkunin var í Iceland Seafood, eða 6,1 prósent. Þar á eftir komu Eik fasteignafélag (4,1 prósent), Hagar (3 prósent) og Reitir fasteignafélag (2,9 prósent). Fjármálafyrirtækin lækkuðu öll í janúar en mesta lækkun var hjá Kviku banka og Origo sem lækkuðu um 9,7 prósent. Þar á eftir kom Marel með 7,3 prósent, svo VÍS (6,4 prósent), Arion banki (5,5 prósent) og Síldarvinnslan (4 prósent). Alls lækkaði verð 11 félaga en 8 félög hækkuðu. Eitt stóð í stað en það var Eimskip.

Verð hlutabréfa Eimskips tvöfaldaðist nær í verði á síðustu 12 mánuðum.

Eimskip hækkað mest síðustu 12 mánuði

Sé horft á 12 mánaða ávöxtun einstakra félaga heldur Eimskip enn þá efsta sætinu með 94,2 prósenta hækkun en skammt þar á eftir kemur Arion banki með 88 prósenta hækkun. Í þriðja sæti kemur síðan Sýn með 75,8 prósenta hækkun. Stærsta félagið í Kauphöllinni, Marel, er eina félagið sem hefur lækkað í verði síðustu 12 mánuði en það hefur lækkað um 3,1 prósent. Minnsta hækkunin er hjá Íslandsbanka en það skýrist að hluta til af því að félagið var skráð á markað í júlí á síðasta ári og á því ekki 12 mánaða sögu. Næstminnsta hækkunin er síðan hjá Högum, eða 21,9 prósent.

Íslenski markaðurinn lækkaði um 4,8 prósent í janúar

Íslenski markaðurinn lækkaði um 4,8 prósent í janúar samkvæmt heildarvísitölu OMX. Sé litið til hlutabréfamarkaða helstu viðskiptalanda Íslands var lækkun á þeim öllum. Mest var lækkunin í Svíþjóð, eða 9,8 prósent. Þar á eftir kom nágrannaríkið Danmörk með 8,9 prósenta lækkun. Bandaríkin komu síðan næst með 5,3 prósenta lækkun og þriðja Norðurlandaþjóðin, Finnland, kom þar á eftir með 5 prósenta lækkun. Minnsta lækkunin var í Bretlandi (0,4 prósent) en þar á eftir komu Kanada (0,6 prósent) og Noregur (2,4 prósent).

Allir hlutabréfamarkaðir í nágrannalöndum okkar lækkuðu í janúar.

Segja má að hlutabréfamarkaðir hafa verið nokkuð stefnulausir síðustu mánuði eftir töluverðar hækkanir framan af síðasta ári. Þannig hefur hækkun í einum mánuði tekið við af lækkun í næsta mánuði. Þannig var lækkun í september, nóvember og janúar en hækkanir í október og desember. Í þessu sambandi má benda á að markaðurinn hér á landi hefur á síðustu árum sveiflast að töluvert miklu leyti með sveiflum erlendis. Þannig hafa verðlækkanir erlendis jafnan leitt til verðlækkana hérlendis. Að sama skapi hafa verðhækkanir hérlendis tilhneigingu til að fylgjast að við verðhækkanir erlendis.

Hlutabréf á Íslandi hækkuðu mest allra síðustu 12 mánuðina.

Íslenski markaðurinn hækkaði mest á síðasta ári

Íslenski markaðurinn hefur hækkað um 30,7 prósent á síðustu 12 mánuðum. Það er mesta hækkunin sé litið til ofangreindra þjóða. Næstmest var hún í Frakklandi (25,8 prósent) og þriðja mest í Noregi (21,9 prósent). Japan rekur lestina með 4,8 prósenta hækkun en þar á eftir kemur Finnland (10,1 prósent) og Þýskaland (11,4 prósent).