Rekstrarafkoma fyrir A og B hluta Hafnarfjarðar var jákvæð um 2,3 milljarða króna á síðasta ári. Fyrir A hluta var afkoman jákvæð um 1,6 milljarða króna, en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bænum.

„Góður árangur náðist við að verja grunnrekstur bæjarsjóðs á síðasta ári, þrátt fyrir neikvæð áhrif vegna Covid-19 faraldursins. Við bætist sala á liðlega 15% hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum hf. og lóðasölur sem höfðu veruleg jákvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu ársins. Skuldaviðmið Hafnarfjarðar hélt áfram að lækka á milli ára og var 101% í árslok 2020,“ segir í tilkynningunni.

Sé rýnt í ársreikning Hafnarfjarðarbæjar fyrir síðasta árs kemur í ljós að rekstrarafkoma A hluta bæjarsjóðs, eftir fjármagnsliði og afskriftir, var neikvæð um 2,27 milljarða króna. Söluhagnaður vegna hlutarins í HS Veitum og lóðasölu skilaði bænum hins vegar 3,34 milljörðum króna í kassann.

Veltufé frá rekstri Hafnarfjarðar lækkaði skarpt milli ára og var 424 milljónir króna, samanborið við um 2,2 milljarða undir lok síðasta árs. Veltufé frá rekstri segir til um hversu mikla fjármuni sveitarfélag hefur úr eigin rekstri til að greiða afborganir vegna skulda og skuldbindinga.

Langtímaskuldir í hlutfalli við veltufé frá rekstri Hafnarfjarðar var um 56 undir lok árs 2020, á meðan sama hlutfall stóð í 10 við lok árs 2019. Veltufjárhlutfall hækkar hins vegar úr 0,5 í 0,9, en það mælir hlutafall veltufjár á móti skammtímaskuldum.

„Hafnarfjarðarbær hefur mætt neikvæðum áhrifum Covid-19 faraldursins með því að styrkja efnahagslegar undirstöður sveitarfélagsins. Á undanförnum árum hefur skuldaviðmið bæjarsjóðs farið stöðugt lækkandi og með sölu á 15% hlut bæjarins í HS Veitum er svo komið að það hefur ekki verið lægra í áratugi. Við höfum getað haldið uppi öflugri þjónustu við íbúa og markvissri uppbyggingu innviða. Við stefnum ótrauð á frekari fjárfestingar í bænum á komandi árum,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri