Arion banki skilaði þrusu uppgjöri fyrir fyrsta ársfjórðung 2021, segir í viðbrögðum greinanda Jakobsson Capital. Grunnreksturinn var sterkari en gert var ráð fyrir, segir greinandinn.

Bankinn hagnaðist um sex milljarða á ársfjórðungnum samanborið við 2,2 milljarða tap á sama tíma fyrir ári. Hagnaðurinn var tveimur prósentum hærri en meðaltal spáa greinenda á markaði hljóðaði upp á.

Besti fjórðungurinn í fjögur ár

Fram kemur í kynningu með uppgjörinu að um sé að ræða besta fjórðunginn í fjögur ár þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður.

Arion banki horfir til þess að greiða arð og/eða kaupa eigin bréf fyrir yfir 50 milljarða króna á næstu árum í ljósi góðrar fjárhagsstöðu, að gefnu samþykki frá Seðlabankanum

Arðsemi eiginfjár á fjórðungnum var 12,5 prósent. Bankinn horfir til þess að hlutfall almenns eiginfjárþáttar verði 17 prósent og ef svo væri, hefði arðsemin verið 16 prósent á ársfjórðungnum.

Tekjur af kjarnastarfsemi jukust um 4,2 prósent á milli ára og segir í viðbrögðum Jakobsson Capital að grunnreksturinn væri sterkari en gert hafi verið ráð fyrir.

Öll helstu fjárhagsmarkmið náðust

„Við erum ánægð með rekstur bankans á fyrsta ársfjórðungi. Öll helstu fjárhagsmarkmið náðust og það er okkar skoðun að vel hafi tekist að stýra bankanum í gegnum þær krefjandi aðstæður sem heimsfaraldurinn hafði í för með sér,“ segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, í tilkynningu.

„Það er ánægjulegt að sjá að margir okkar viðskiptavina eru farnir að búa sig undir betri tíma.“

„Umtalsverðar og jákvæðar breytingar urðu á milli ára hvað varðar virðisbreytingu útlána og fjármunatekjur enda einkenndist uppgjör fyrsta ársfjórðung síðasta árs af gríðarlegri óvissu. Þó vissulega sé enn margt óljóst varðandi leiðina út úr heimsfaraldrinum þá er ástæða til aukinnar bjartsýni nú þegar bólusetningar ganga vel, bæði hér á landi og í mörgum þeirra landa sem skipta ferðaþjónustuna miklu. Það er ánægjulegt að sjá að margir okkar viðskiptavina eru farnir að búa sig undir betri tíma,“ bætir hann við.

Fimm þúsund erlendir hluthafar

Hann segir að það hafi verið allnokkur breyting á hluthafahópi bankans það sem af er ári. „Stórir erlendir hluthafar sem tóku þátt í hlutafjárútboði bankans fyrir tæpum þremur árum hafa farið úr hluthafahópnum og í þeirra stað hafa komið íslenskir fjárfestar. Hluthafar bankans eru í dag rúmlega átta þúsund og eiga íslenskir hluthafar um 90 prósent hlutafjár. Lífeyrissjóðir eiga nær helmings hlut í bankanum og eru aðrir innlendir aðilar eigendur að um 40 prósent hlutafjár. Það er athyglisvert að þótt hlutafjáreign erlendra aðila hafi lækkað í um 10 prósent hlut í bankanum þá eru erlendir hluthafar fimm þúsund talsins og þeir eru því í fjölda talið meirihluti hluthafa bankans.“

Markaðsvirði Arion banka miðað við bókfært virði eiginfjár (V/I-hlutfall) hækkaði úr 0,81 í 1,05 á ársfjórðungnum. Sérfræðingar á markaði segja að hlutfallið hjá erlendum bönkum með jafn mikla arðsemi sé 1,4-1,5 og benda á að vongunarhlutfall þeirra sé hærra.

Telja að vaxtamunur fari vaxandi

Hreinn vaxtamunur var 2,7 prósent við aðstæður þar sem vextir hafa lækkað mjög, samanborið við 2,8 prósent á sama tíma fyrir ári.

Sérfræðingar á markaði telja að vaxtamunurinn muni batna samhliða vaxtahækkunum, hvort sem þær megi rekja til markaðsaðstæðna eða til stýrivaxtahækkana Seðlabankans.

Arion banki virðist bera vel á veg kominn með að ná markmiði sínu um 45 prósent kostnaðarhlutfall, hlutfallið var 46,2 prósent á fjórðungnum.