Hagnaður útgerðarfyrirtækisins Jakobs Valgeirs nam ríflega 14 milljónum evra, jafnvirði tveggja milljarða króna, á síðasta ári og nær ellefu­faldaðist frá fyrra ári þegar hann var um 1,3 milljónir evra.

Hagnaður síðasta árs skýrist að mestu af söluhagnaði hlutabréfa upp á samanlagt 11,9 milljónir evra, tæplega 1,7 milljarða króna, að því er fram kemur í nýjum ársreikningi útgerðarinnar.

Rekstrartekjur Jakobs Valgeirs námu 26,9 milljónum evra, sem jafngildir 3,8 milljörðum króna, á síðasta ári og jukust um 13,5 prósent eða 3,2 milljónir evra frá fyrra ári.

Þá var rekstrarhagnaður útgerðarinnar tæplega 3,5 milljónir evra í fyrra borið saman við 3,3 milljónir evra árið 2017 en framlegð minnkaði hins vegar um 500 þúsund evrur á milli ára og var tæpar 4,7 milljónir evra á síðasta ári.

Samkvæmt efnahagsreikningi Jakobs Valgeirs námu eignir útgerðarinnar liðlega 91,6 milljónum evra, jafnvirði 12,9 milljarða króna, í lok síðasta árs en á sama tíma var eigið fé þess 29 milljónir evra og eiginfjárhlutfallið því um 32 prósent.

Stærsti hluthafi útgerðarinnar er félagið F84, sem er í eigu Bjargar Hildar Daðadóttur, eiginkonu Jakobs Valgeirs Flosasonar framkvæmdastjóra, með 47 prósenta hlut en Flosi Valgeir Jakobsson, faðir Jakobs Valgeirs, fer með 36 prósenta hlut í útgerðarfyrirtækinu.