Ef tök nást á COVID-19 faraldrinum má vænta heilbrigðs vaxtar frá og með 2021. Þetta kemur fram í Þjóðhagsspá Íslandsbanka 2020–2022. Hagvaxtarspáin miðar við að bóluefni verði í almennri dreifingu fyrir næsta sumar. Búast má þá við 8,6 prósenta samdrætti í ár, 3,1 prósents hagvexti á því næsta og 4,7 prósenta hagvexti árið 2022. Spáin er mildari en í vor, þá spáði bankinn 9,2 prósenta samdrætti í ár.

Bati í ferðaþjónustu hefur mest að segja um hve hratt dregur úr atvinnuleysi, í ár má búast við 7,8 prósenta meðaltalsatvinnuleysi, að það fari niður í 7,6 prósent á næsta ári og 4,7 prósent árið 2022. Bankinn spáði meira atvinnuleysi í ár í maí, segir í spánni að meðal annars muni um sterkari vinnumarkað í sumar en vænst var og minnkandi atvinnuþátttöku.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að ef til átaka kemur á vinnumarkaði verði vöxtur hægari. „Ef þau myndu dragast á langinn þá myndu þau auka enn frekar á erfiðleikana í vetur, án þess að hafa gert nákvæma tölulega greiningu á því má búast við að atvinnuleysi yrði þrálátara og vöxturinn hægari þegar liði á næsta ár,“ segir hann.

Spáð er að útflutningur vöru og þjónustu minnki um 27,2 prósent á þessu ári en aukist um 10,1 prósent á því næsta. Þá má búast við 2,7 prósenta verðbólgu að meðaltali á þessu ári og því næsta, 1,9 prósenta árið 2022.

Bankinn spáir að einkaneysla skreppi saman um 3,3 prósent í ár, má svo búast við 1,6 prósenta vexti á næsta ári og að 4,7 prósenta vöxtur verði í einkaneyslu árið 2022.

Þá er gert ráð fyrir að raunverð íbúða standi í stað á þessu ári en lækki um 1 prósent á næsta ári en hækki svo aftur árið 2022 og verði á svipuðum stað og í fyrra. Mikill samdráttur í nýbyggingum á fyrstu byggingarstigum á árinu bendir til dvínandi framboðs nýbyggðra íbúða þegar lengra líður á spátímann. Mun það, ásamt minnkandi atvinnuleysi og hraðari vexti kaupmáttar, vega til hækkunar íbúðarverðs með tímanum.

Erlendir ferðamenn voru tæplega 2 milljónir talsins á síðasta ári, búast má við að í ár verði þeir undir 500 þúsundum. Spáð er að ferðamenn verði 800 þúsund á næsta ári og allt að 1,2 milljónir árið 2022. Það getur tekið einhvern tíma fyrir fólk að vilja ferðast á ný, þá má gera ráð fyrir að fargjöld hafi hækkað í verði.

Jón Bjarki segir að nú komi sér vel að hafa sterkan grunn, svokallaðan vetrarforða. „Í ljósi þess hvað við fengum þungan skell á stærstu útflutningsgreinina þá tel ég að við höfum burði til að fara miklu léttar í gegnum sveifluna núna en fyrir áratug síðan, hvað þá ef litið er lengra aftur í tímann. Þrátt fyrir allt, þá höfum við burði til að lenda á fótunum eftir kreppuna núna og útlitið er ágætt þegar fram í sækir með þeim fyrirvara að við vitum ekki nákvæmlega hvernig þessi faraldur mun þróast,“ segir hann.

Ísland lítur vel út að þessu leyti í erlendum samanburði. „Mörg lönd í kringum okkur eru til dæmis að byrja þar sem við endum með ríkisskuldir, einhvers staðar í kringum 60 prósent af landsframleiðslu,“ segir Jón Bjarki. „Það má heldur ekki gera lítið úr samheldninni í samfélaginu, við höfum ekki séð fjöldamótmæli við ákvörðunum stjórnvalda á þessu ári eða séð neitt djúpstæða óánægju með stefnuna sem hefur verið farin til að takast á við faraldurinn.“

Jón Bjarki segir að við lok spátímans sé stutt í að jafnvægi verði komið á hagkerfið. „Við verðum í sterkri stöðu. Vextir verða áfram lægri en þeir hafa verið áratugum saman, það mun ýta hlutunum hraðar áfram en ella.“

„Við verðum í sterkri stöðu. Vextir verða áfram lægri en þeir hafa verið áratugum saman, það mun ýta hlutunum hraðar áfram en ella,” segir Jón Bjarki.