Jakob E. Jakobsson, eigandi og framkvæmdastjóri Jómfrúarinnar, tekur að mestu undir aðfinnslur Þórarins Ævarssonar, framkvæmdastjóra Ikea, við verðlagningu á matreiðslustöðum á Íslandi. Hann segir það of dýrt að fá sér skyndibita á Íslandi.

Fréttablaðið greindi í gær frá erindi sem Þórarinn flutti á ráðstefnu ASÍ. Fyrirlesturinn bar heitið „Af hverju er verð­lag á mat­vöru á Ís­landi svona hátt?“. Hann sagði að á Íslandi ríki tilhneiging til að rukka mörg hundruð eða jafnvel þúsund prósent umfram raunkostnað. „Fingurbjörg af kokteilsósu, sem allir vita að er í grunninn majónes og tómatsósa, kostar allt að 300 krónur en kostnaðurinn er kannski 10 eða 15 krónur. Þetta þekkja allir sem fá sér hamborgara,“ sagði Þórarinn meðal annars í erindi sínu.

Sjá einnig: „Allt gert til að verj­a verð­l­agn­ing­u ferð­a­m­ann­a­­­stað­a“

Jakob Jakobsson, sem rekur veitingastaðinn Jómfrúnna í miðbæ Reykjavíkur og situr auk þess í stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar, tekur að mestu undir aðfinnslur Þórarins. „Ég er í grunninn bara sammála því sem hann er að segja, hann hefur verið duglegur við að koma með smá svona pillur til veitingamanna,“ segir Jakob í samtali við Fréttablaðið. Þórarinn hefur einmitt gagnrýnt ferðaþjónustuna á Íslandi mikið fyrir okurverðlagningu.

Verðlagning að mestu leyti skynsamleg

Jakob segir að verðlagning sé að mestu leyti nokkuð skynsamleg á Íslandi, en að það séu skyndibitastaðir sem helst verðleggja sig hátt. „Ég get alveg tekið undir að margar skyndibitakeðjur og bakarí, fyrirtæki sem eiga meira skilt við iðnað en hátt gæða og þjónustustig, gætu eflaust lært sitt hvað af orðum Þórarins, að mínu viti eru verð á skyndibita á Íslandi hátt,“ segir Jakob. „En þessi hversdagsveitingahús eru bara með sanngjarnt verð held ég.“

Jakob bendir á að það sé nokkuð ódýrt að sækja fínni veitingastaði með góðan mat og þjónustu, og að fyrirtæki á Íslandi séu líklegri en annars staðar til að taka þátt í allskyns vildarklúbbum og að veita afslætti til tiltekinna hópa. „Mér finnst ekki dýrt að fara út að borða í hádeginu með flottan mat og fulla þjónustu og allan pakkann fyrir tvö þúsund kall meðan það kostar eitthvað svipað að fara á skyndibitastað eins og t.d Subway,“ segir Jakob.

Menn verða að ná upp í kostnað

Aðspurður segir hann þó að álagning sé vissulega há í prósentum talið á veitingastöðum almennt og skiptir þá ekki máli hvort þeir séu íslenskir eða erlendir. „Álagningin er mjög há miðað við annan rekstur, enda krónurnar ekki jafn margar. Þú þarft að selja fleiri ísa í Ikea en iPhone:a hjá Apple til að eiga fyrir launum starfsmannsins sem afgreiðir “ segir Jakob. „Staðirnir sem selja bara kaffi geta svo heldur ekki haft kaffi á tvö hundruð kall eins og í Ikea, af því menn verða ná upp í kostnað, kaffið sjálft er í slíkum rekstri ekki auka sala tengt einhverju öðru, eins og hjá IKEA heldur það sem þarf að standa undir rekstrinum.“

Jakob segir að sem betur fer séu angar markaðarins fyrir veitingasölu margir og dreifðir. „Heilt yfir má færa rök fyrir því að aðgangshindranir séu lágar og samkeppni mikil hvort sem keppt er í verðum, gæðum, staðsetningum, til dæmis við náttúruperlur eða miðbæi eða í húsgagnaverslunum. Það er aðalmálið í þessu öllu,“ segir Jakob að lokum.