Um þriðjungur af tekjum líftæknifyrirtækisins Ísteka skilaði sér í hagnaði. Ísteka, sem nýtir gjafablóð úr hryssum til að framleiða frjósemislyf fyrir svínabændur, hagnaðist um 592 milljónir árið 2020 og 507 milljónir 2019. Fyrirtækið, sem velti 1,7 milljörðum króna í fyrra, hefur lengi verið í góðum rekstri og greiddi sér 300 milljónir króna í arð í fyrra.

Ísteka hefur sætt gagnrýni eftir að svissnesku dýraverndarsamtökin Animal Welfare Foundation birtu myndband, sem sýnir blóðtöku úr fylfullum hryssum á sveitabæ hérlendis.

„Stjórnendum og starfsfólki Ísteka mislíkar verulega þessi vinnubrögð við framleiðslu á vöru fyrir okkur. Þau uppfylla ekki ströng skilyrði okkar til dýravelferðar. Við höfum nú þegar hafið innri rannsókn á birgjunum og atvikunum,“ sagði í tilkynningu.

Hörður Kristjánsson á 74 prósenta hlut í Ísteka.